Hlutir í Ölgerðinni seldir á 8,9 kr. á hlut

Andri Þór Guðmundsson , forstjóri Ölgerðarinnar.
Andri Þór Guðmundsson , forstjóri Ölgerðarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 30% hlutur verður boðinn út í hlutafjárútboði Ölgerðarinnar sem hefst í byrjun næstu viku. Félagið er metið á um 25 milljarða króna og mun söluandvirði hlutarins því vera um 7,5 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í fjárfestakynningu, sem birt var á vef Ölgerðarinnar í gærkvöldi. Hlutafjárútboðið mun, sem fyrr segir, hefjast á mánudag og standa út næstu viku. Tilkynnt verður um úthlutun mánudaginn 30. maí nk. Þá er ráðgert að viðskipti hefjist með bréf félagsins í Kauphöllinni 9. júní.

Rúmlega 330 þúsund hlutir, eða um 40% af útboðinu, verða seldir í tilboðsbók A á föstu gengi, 8,9 kr. á hlut. Hægt verður að bjóða á bilinu 100 þúsund krónur til 20 milljónir í áskriftir. Áskriftir verða skertar hlutfallslega en þó er stefnt að því að skerða ekki áskriftir undir einni milljón króna. Þá verða tæplega 500 þúsund hlutir, eða um 60% af útboðinu, seldir í tilboðsbók B á tilboðsverði – þó ekki undir 8,9 kr. á hlut, þar sem lágmarkstilboð í áskrift er 20 milljónir króna.

Þá kemur fram að núverandi hluthafar muni selja hlutfallslega jafn mikið af bréfum í félaginu að undanskildum lykilstarfsmönnum, sem munu ekki selja. Lífeyrissjóðir eiga nú um 37% hlut, einkafjárfestar um 25% hlut en tryggingafélög, bankar og verðbréfasjóðir um 16% hlut. Þá eiga þeir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, og Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar, saman 16% hlut í félaginu.

Ölgerðin mun ráðstafa um 17 milljón hlutum, sem er um 0,6% af útistandandi hlutum í félaginu, til starfsmanna. Hver starfsmaður fær bréf sem eru að verðmæti 500 þúsund krónur að hámarki.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK