Fréttaskýring: Bati framundan í hagkerfinu en brekkan er brött

Jón Bjarki Bentsson er aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson er aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Styrmir Kári

Gera má ráð fyrir því að verðbólga fari hæst í 8,4% í lok sumars og að stýrivextir fari yfir 5% fyrir lok þessa árs. Aftur á móti er útlit fyrir að krónan styrkist enn frekar og að vextir lækki um mitt næsta ár, þó hægt til að byrja með.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka sem birt er í dag. Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir 5% hagvexti á árinu en að hagvöxtur minnki töluvert á næsta ári og verði þá um 2,7%.

Þá eru kjarasamningar, íbúðaverð og erlent verðlag taldir helstu óvissuþættir. Mikilvægt sé fyrir þróun verðbólgunnar að hægja taki á íbúðaverðshækkunum þegar líða tekur á árið. Verði það raunin, muni hægari taktur íbúðaverðs vega á móti aukinni innfluttri verðbólgu þegar frá líður. Önnur mikilvæg forsenda er að launahækkanir fari ekki fram úr öllu hófi en kjarasamningar losna undir lok ársins.

Vöxtur í ferðaþjónustu

Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir hröðum bata í ferðaþjónustu hérlendis í ár og spáir því að fjöldi ferðamanna verði á bilinu 1,5 – 1,6 milljón. Gangi sú spá eftir er það svipaður fjöldi og var hér um miðjan síðasta áratug. Á næsta ári gerir bankinn ráð fyrir 1,9 milljón ferðamanna og 2,1 milljón árið 2024. Þá segir að hraður bati í ferðaþjónustunni skýri stóran hluta þess 20% útflutningsvaxtar sem bankinn spáir að verði í ár.

„Hægari fjölgun ferðamanna þegar frá líður skrifast meðal annars á hærra raungengi, sem gerir Ísland dýrara í samanburði við aðra áfangastaði, svo og horfur á hægari vexti eftirspurnar á heimsvísu,“ segir í þjóðhagsspánni. Þá kemur fram að þrátt fyrir að ferðamenn hérlendis hafi verið mun færri í fyrra en árin fyrir faraldur, hafi það hjálpað tekjuöflun ferðaþjónustunnar að ferðafólk sem lagði leið sína hingað til lands dvaldi að jafnaði lengur hér á landi og eyddi hærri fjárhæðum en raunin var áður.

„Miklu skiptir að sú þróun haldi áfram og teljum við góðar líkur á að tekjur á hvern ferðamann verði að jafnaði nokkru hærri en á síðasta áratug,“ segir í spánni.

Verðbólga slær á kaupmátt heimilanna

Þá kemur fram að vísbendingar séu um að einkaneysla á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hafi vaxið allmyndarlega. Til dæmis hafi kortavelta aukist, þar sem velta erlendis bar uppi vöxtinn ásamt því að sala á nýjum fólksbílum var sú mesta frá árinu 2018.

„Nú eru breyttar horfur í þessum efnum og útlit fyrir að hægja muni á einkaneysluvextinum þegar líða tekur á árið. Heimilin eru ekki jafn bjartsýn og þau voru áður og verðbólga mun að öllum líkindum draga úr kaupmætti þeirra á næstu misserum,“ segir í spánni.

„Kaupmáttur launa óx nefnilega talsvert í gegnum faraldurinn en vegna aukinnar verðbólgu er útlit fyrir að breyting verði þar á. Við spáum því að kaupmáttur muni standa í stað á þessu ári og aukast hægt næstu tvö ár spátímans.“

Þó segir í spánni að heimilin standi styrkum fótum og eigi að eiga talsvert af uppsöfnuðum sparnaði, sem muni koma sér vel og líklega verða til þess að einkaneysla haldi áfram að vaxa það sem eftir lifir árs.

Búast við aukinni verðbólgu

Í þjóðhagsspánni er fjallað um verðbólguhorfur. Fram kemur að verðbólga, sem nú mælist 7,2%, hafi ekki mælst hærri í tólf ár. Þá kemur fram að flestir, ef ekki allir greiningaraðilar bæði hérlendis og erlendis, hafi vanspáð fyrir verðbólgu og ljóst sé að hún sé þrálátari en spár gerðu ráð fyrir. Samsetning verðbólgunnar hafi tekið þó nokkrum breytingum upp á síðkastið.

„Þótt húsnæðisliðurinn skýri stærstan hluta verðbólgunnar um þessar mundir, hafa innfluttar vörur hækkað talsvert í verði. Þar að auki hefur framlag innlendra vara einnig aukist verulega að undanförnu, sem er afleiðing innfluttrar verðbólgu þar sem erlend aðföng eru oft notuð í innlenda framleiðslu,“ segir í spánni.

„Um þessar mundir eru helstu hækkunarvaldar vísitölunnar hækkandi íbúðaverð og aukin innflutt verðbólga. Ekki er útlit fyrir að hækkunartaktur þessara liða muni hjaðna á næstu mánuðum. Við gerum því ráð fyrir að verðbólga muni halda áfram að aukast næstu mánuði og ná toppi í lok sumars í 8,4%. Við gerum ekki ráð fyrir að draga muni að ráði úr verðbólgunni fyrr en um mitt næsta ár,“ segir jafnframt. Bankinn spáir að meðaltali 7,6% verðbólgu í ár, 5,9% á næsta ári og 3,9% árið 2024. Ef spá bankans gengur eftir, verður verðbólgumarkmiði Seðlabankans ekki náð á spátímanum.

Stýrivextir hækki enn frekar

Þá kemur loks fram að þrálát verðbólga, versnandi verðbólguhorfur til skemmri tíma og batnandi efnahagur hafi orðið til þess að Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferli í maí á síðasta ári. Stýrivextir eru nú 3,75% eftir 3 prósenta hækkun undanfarið ár. Raunstýrivextir eru þó enn neikvæðir á alla mælikvarða.

„Af orðum og gerðum Seðlabankafólks undanfarið má ráða, að talsverð frekari hækkun vaxta sé í kortunum til skemmri tími litið, í því skyni að koma böndum á verðbólgu, halda aftur af verðbólguvæntingum og ýta raunstýrivöxtunum nokkuð yfir núllið,“ segir í spánni.

„Við spáum því að stýrivextir hækki áfram allhratt og nái hámarki á bilinu 5-6% í lok þessa árs. Að því gefnu að þá verði farið að draga úr verðbólgu og eftirspurnarþrýstingi í hagkerfinu, áætlum við að vöxtum verði haldið óbreyttum fram eftir árinu 2023 en vextirnir taki að lækka að nýju á seinni helmingi þess árs. Við taki hægfara lækkunarferli í átt að jafnvægisraunvöxtum sem líklega eru á bilinu 1-1,5%.“

Þannig spáir bankinn því að stýrivextir gætu því orðið í grennd við 4,5% undir lok spátímans en vitaskuld sé óvissa um þróunina mikil þegar fram í sækir.

Skortur á vinnuafli?

Atvinnuleysi hefur hjaðnað hratt frá því það mældist mest í janúar 2021. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var skráð atvinnuleysi að meðaltali um 5,1% og bankinn telur að það muni hjaðna enn frekar á næstu mánuðum. Þrátt fyrir að flestum aðgerðum stjórnvalda vegna Covid-19 faraldursins sé lokið, hefur atvinnuleysi haldið áfram að hjaðna og hraður efnahagsbati hafi orðið til þess að störfum hafi fjölgað hratt.

Þá spáir bankinn því að atvinnuleysi mælist að meðaltali um 4,4% á árinu. Aftur á móti bendi könnun, sem unnin var fyrir Seðlabankann og Samtök atvinnulífsins, meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins, til þess að skortur sé á starfsfólki, ekki síst í byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu.

„Fjöldi starfa er nú orðinn meiri en fyrir faraldur en samsetning þeirra hefur þó breyst nokkuð. Nú eru um 20% færri starfandi í ferðaþjónustu og tengdum greinum en fyrir faraldurinn. Það er því ljóst að það verður stór áskorun fyrir fyrirtæki í þessum geirum að ráða inn starfsfólk á næstu misserum. Stór hluti starfsfólks í þessum greinum hefur komið frá öðrum löndum og útlit er fyrir að þeim muni fjölga áfram, samhliða bata í efnahagskerfinu,“ segir í spánni.

Ólíkar sviðsmyndir

Í þjóðhagsspá Íslandsbanka eru teiknaðar upp tvær sviðsmyndir í viðauka, önnur bjartsýn og hin svartsýn. Fram kemur að horfur fyrir efnahagslífið, jafnt hérlendis sem á heimsvísu, hafi sveiflast mikið frá því að bankinn gaf síðast út þjóðhagsspá í janúar sl. Sér í lagi hafi framþróun Covid-19 faraldursins og innrás Rússa í Úkraínu breytt horfunum á undanförnum vikum og mánuðum. Þá sé einnig veruleg óvissa um hvernig kjarasamningum á almennum vinnumarkaði muni vinda fram á seinni hluta ársins. Þeir geti skipt verulegu máli fyrir efnahagsþróun hér á landi, hvort þar náist farsæl lending sem samrýmist hóflegri verðbólgu á komandi misserum.

Bankinn ákvað því að setja saman tvær frávikssviðsmyndir um efnahagsþróun hérlendis til viðbótar við grunnspá sína. Greining Íslandsbanka telur þó að fráviksspárnar tvær endurspegli þróun sem bankinn telji raunhæfa en þó talsvert ólíklegri en þá sem grunnspáin lýsir.

Þessar tvær sviðsmyndir má sjá hér fyrir neðan með því að smella á myndirnar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK