Myndi ekki selja Appelsín á 2 milljarða

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar. mbl.is/Golli

Í nýjasta ársreikningaþætti Pyngjunnar var brugðið út af vananum vegna útboðs Ölgerðarinnar sem hefst í næstu viku. Þátturinn er þannig tvískiptur, en í fyrri hlutanum taka þeir Arnar og Ingvi fyrir nýjasta ársreikning Ölgerðarinn og ræða nýútgefna fjárfestakynningu og í seinni hlutanum fá þeir Andra Þór Guðmundsson, forstjóra Ölgerðarinnar, í viðtal þar sem hann er spurður út í fyrirtækið, rekstur þess og horfur og eins og gefur að skilja úboðið sjálft.

Metár Ölgerðarinnar

Ölgerðin átti metár í fyrra þegar kom að veltu en samstæðan velti tæplega 32 milljörðum króna, sem er um 22% aukning á veltu frá árinu 2020. Aðspurður hvernig þessi gríðarlegi vöxtur væri tilkominn sagði Andri Þór vöxtinn koma úr mörgum áttum. Þar hafi komið til kaup á umboði frá Ásbirni Ólafssyni, endurkoma hótela og veitingastaða, söluaukning nýrra vara og aukning markaðshlutdeildar á drykkjarvörumarkaði – og allt hafi þetta átt sinn þátt í vextinum.

Aukin afkastageta

Ölgerðin fjárfesti nýlega í nýrri framleiðslulínu, Brák, sem fjórfaldar afkastagetu fyrirtækisins á dósaframleiðslu. Segir Andri þetta vera nauðsynlegt skref í breyttu neyslumynstri Íslendinga því fyrirtækið hafi ekki náð að anna eftirspurn eftir dósum í fyrra. Aðspurður hvort þessi nýja framleiðslulína sé ekki of stór fyrir íslenska framleiðslu segir Andri hana mynda rými til útflutnings og að tækifærin séu til staðar, en telur þó möguleika til vaxtar innanlands ennþá talsvert mikla. Stærsti hlutur útflutnings í dag hefur verið í gegnum Borg brugghús og sölu af Brennivíni til bandaríkjanna, en engu að síður er þetta innan við 1% af veltu fyrirtækisins í dag.

Myndi aldrei selja Appelsín á tvo milljarða

Þegar umræðan var leidd út í óefnislegar eignir félagsins, sem standa í um 7,4 milljörðum króna og koma til vegna sameiningar Ölgerðarinnar og Danól árið 2007, var Andri spurður út í verðmat einstakra vörumerkja Ölgerðarinnar og var meðal annars spurður hvort hann myndi selja Appelsín á tvo milljarða. Andri þvertók fyrir það og sagði þetta vera eign sem enginn myndi taka frá Ölgerðinni.

Hin konunglega Ölgerð

Að lokum var Andri spurður hvort að Ölgerðin væri enn konunglegt ölgerðarhús við dönsku hirðina. Þá var skellt upp úr en hann sagðist ekkert meira vita nema þegar Kristján tíundi hafi verið hér á landi árið 1926 hafi hrifning hans á Pilsnernum verið svo mikil að hann útnefndi Ölgerðina sem konunglegt hirðbrugghús. Léttur sagðist Andri þó ekki hafa samband við Margréti Þórhildi en væri ekki í neinum vafa um að ef hún kæmi hér til lands yrði hún hrifin af bjórnum þeirra.

Fyrri hluti þáttarins var yfirferð Pyngjunnar á ársreikningum Ölgerðarinnar og sjá hann hér: 

Seinni partur þáttarins er viðtal við Andra og má hann finna hér:

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK