Kerfið þarf að vinna fyrir atvinnulífið en ekki öfugt

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ávarpar Viðskiptaþing 2022.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ávarpar Viðskiptaþing 2022.

„Við getum haldið áfram að láta atvinnulífið vinna fyrir kerfið. Eða snúið því við og látið kerfið vinna fyrir atvinnulífið.“

Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í erindi sínu á Viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Áslaug Arna fór yfir sýn sína á nýtt ráðuneytið sem sett var á fót í byrjun ársins og sagði að markmið ráðuneytisins væri að vinna öll verkefni þannig að þau taki mið af fólkinu sem ráðuneytið er að vinna fyrir. Hún sagði að með nýju vinnulagi væri hægt að virkja betur opinbera starfsmenn en mikilvægt væri að huga að starfsmannamálum þar eins og annars staðar.

„Forsenda árangurs stofnana og fyrirtækja er að fólki líði vel, og mér finnst til fyrirmyndar að Viðskiptaráð beini athyglinni í þá átt – vegna þess að í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi missum við allt okkar besta fólk ef því líður ekki vel í vinnunni,“ sagði Áslaug Arna.

Störfum í einkageiranum fjölgi

Áslaug Arna varpaði á skjá línuritum sem sýna atvinnuleysi meðal lögfræðinga, viðskipta- og hagfræðinga, verkfræðinga og fleiri stétta – og benti á að það gangi ekki upp til lengri tíma að fólk með drauma og þrár skrái sig í háskólanám, stundi það í mörg ár en fái ekki störf við hæfi.

„Þegar ég sá þessar tölur staldraði ég við og setti það efst á forgangslista ráðuneytisins að við gerðum allt sem við gætum til að útskrifa fólk inn í atvinnulífið - inn í framtíðina. Við ætlum að gera þetta í gegnum nýja nálgun í fjármögnun háskólanna sem nú þegar er í undirbúningi og þar verður samstarf við háskólana lykilatriði,“ sagði Áslaug Arna.

„Okkur vantar rafeindaverkfræðinga, sérfræðinga í efnasmíði og skýjalausnum,  listræna hönnuði, heilsugagnaforritara, líftæknigagnafræðinga og svo marga aðra snillinga.“

Þá sagði Áslaug Arna að fyrir hverja 10 einstaklinga sem störfuðu í einkageiranum árið 2021, voru 14 sem gerðu það ekki. Þá bætti hún við að stjórnmálamenn gætu ekki tekið ákvarðanir sem verða til þess að störfum í einkageiranum fækki á meðan störfum í opinbera geiranum fjölgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK