Tekjur Orkuveitu Reykjavíkur aukast

Tekið er fram að verð á ýmissi hrávöru hafi hækkað …
Tekið er fram að verð á ýmissi hrávöru hafi hækkað verulega síðustu mánuði mbl.is/Kristinn Magnússon

Tekjur samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 jukust um 14% frá sama tímabili á síðasta ári.

Frá þessu greinir Orkuveitan í tilkynningu en Reykjavíkurborg fer með tæplega 94% eignarhlut í fyrirtækinu. Innan samstæðu Orkuveitunnar eru Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix.

Auknar tekjur eru í tilkynningunni sagðar helst skýrast af raforkusölu til stóriðju.

Hagnaður tímabilsins nam 6,8 milljörðum króna en einskiptiskostnaður og tjón í óveðrum febrúarmánaðar hækkuðu rekstrarkostnað tímabilsins miðað við fyrsta fjórðung síðasta árs.

Hærra álverð

Tekið er fram að verð á ýmissi hrávöru hafi hækkað verulega síðustu mánuði og misseri á heimsmarkaði.

„Þar á meðal er álverð en hluti raforkusölu Orku náttúrunnar er tengdur markaðsverði á áli. Álverðið var liðlega 50% hærra fyrstu þrjá mánuði ársins 2022 en 2021 og 90% hærra en 2020,“ segir í tilkynningunni.

Tekjuaukinn, miðað við fyrstu þrjá mánuði síðasta árs, nam tæpum milljarði króna en áhættuvarnir eru sagðar draga úr heildaráhrifum álverðsins á niðurstöðu samstæðunnar.

„Tekjur annarra rekstrarþátta innan samstæðu OR jukust einnig, einkum vegna fjölgunar viðskiptavina og aukinnar notkunar hitaveitu Veitna.“

Bent er á að ofsaveðrið sem gekk yfir síðla febrúarmánaðar hafi valdið nokkru tjóni, einkum á loftlínum rafveitu Veitna. Víðtækar truflanir í raforkukerfinu vegna óveðursins skemmdu einnig dælubúnað í fráveitum. Aukinn viðhaldskostnaður skili sér í hækkuðum rekstrarkostnaði í árshlutauppgjörinu.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.

Skiptir máli að gæta hagsýni

Haft er eftir forstjóranum Bjarna Bjarnasyni að OR sé ekki ónæm fyrir áhrifum verðbólgunnar, sem nú sé meiri en um árabil.

„Við finnum líka fyrir hækkandi vöxtum þar sem við höfum, í áhættuvarnarskyni, aukið vægi íslensku krónunnar í okkar fjármögnun. Verð á veituþjónustunni hefur í heildina sem betur fer lækkað að raungildi síðustu árin,“ segir Bjarni.

„Við þessar aðstæður, sem nú eru uppi, skiptir þó enn meira máli en áður að gæta hagsýni í allri okkar starfsemi. Þannig má draga úr líkum á að þær verðhækkanir, sem við sjáum á verkkaupum og öðrum aðföngum okkar, skili sér í heimilisbókhald almennings.“

Á vef Orkuveitu Reykjavíkur er að finna myndræna framsetningu á ýmsum fjárhagslegum mælikvörðum og markmiðum þeim tengdum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK