Bjartsýnn á að reksturinn taki við sér

Birgir Jónsson, forstjóri Play, er bjartsýnn á að snúa rekstri …
Birgir Jónsson, forstjóri Play, er bjartsýnn á að snúa rekstri félagsins við á næstu mánuðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir flugfélagið vera á tímamótum. Eftirspurn sé sífellt að aukast og markaðurinn að taka við sér eftir heldur óvenjulegt tímabil sem heimsfaraldur Covid-19 hefur haft mikil áhrif á. Er hann enn bjartsýnn á að afkoma verði jákvæð síðari hluta árs.

Þetta kom fram í máli hans á fjárfestakynningu Play sem fór fram í morgun en þar var farið yfir árshlutauppgjör flugfélagsins sem var birt í gær.

Tap félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 11,2 milljónum dala en það er jafnvirði um 1,4 milljörðum króna á núverandi gengi. Stærsti útgjaldaliðurinn var launakostnaður en hann var um 4,6 milljónir dala. Eykst tapið lítillega frá síðasta ársfjórðungi.

Tekjurnar á fyrsta ársfjórðungi námu 9,6 milljónum dala, þar af 7,1 milljón af fargjöldum og 2,2 af aukaþjónustu. 

Fyrsti ársfjórðungur undirbúningstímabil

Á kynningunni sagði Birgir fyrsta ársfjórðunginn hafa verið eins konar undirbúningstímabil fyrir sumarið þar sem félagið bætti við sig flugvélum, auk þess sem mikið af nýju fólki var fengið til starfa. Þá beri að hafa í huga hvaða áhrif Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar hafði á reksturinn en eftirspurn eftir flugferðum dróst saman þegar sú bylgja stóð sem hæst í byrjun árs.

Ef apríl sé hins vegar skoðaður sjáist að eftirspurn er sífellt að aukast og sagðist forstjórinn bjartsýnn á að farþegum fjölgi talsvert á næstu mánuðum.

Þá sagði hann sífellt fleiri nýta sér þjónustu fyrirtækisins fyrir millilandaflug sem væri jákvætt en eftirspurn meðal erlendra ferðamanna eftir flugferðum til Íslands væri að staðna. Taldi Birgir að ástæðuna mætti rekja til íslensku ferðaþjónustunnar sem væri enn að ná sér eftir mikla lægð. Skortur væri á bílaleigubílum og gistiplássi þar sem ferðaþjónustan væri enn að byggja sig upp og ráða til sín starfsfólk.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK