Setja fókus á verðmætasköpun

Lilja Alfreðsdóttir.
Lilja Alfreðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnkerfið í heild sinni, bæði stjórnsýslan og stjórnmálamenn, þarf að leggja meira af mörkum til að efla samkeppnishæfni Íslands og auka útflutningstekjur til lengri tíma. Þannig er lagður grunnur að aukinni hagsæld hér á landi.

Þetta segir Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í samtali við Morgunblaðið, en hún mun á næstu dögum kynna nánar aðgerðaáætlun ráðuneytis síns fram að áramótum.

„Okkur er alvara þegar við segjum að við viljum skapa aukna hagsæld og vaxa til meiri velsældar og þeim orðum þurfa að fylgja aðgerðir,“ segir Lilja.

„Ég lít þannig á að við sem störfum í stjórnmálum þurfum að setja okkur markmið um að auka gegnsæi og kynna áætlanir okkar betur. Það er það sem ég gerði þegar ráðuneytið tók til starfa í byrjun þessa árs og mun gera áfram.“

Skýrt hlutverk

Hún segir að á fyrstu hundrað dögum ráðuneytisins hafi tekist að ljúka við átta af þeim þrettán aðgerðum sem lagt var upp með, en ráðuneytið fer meðal annars með málaflokka ferðaþjónustu, fjölmiðla, menningar og viðskipta.

„Við settum á fót skrifstofu verðmætasköpunar og vorum svo heppin að fá þar Daníel Svavarsson til að stýra þeirri skrifstofu,“ segir Lilja.

„Tækifæri í verðmætasköpun eru gífurleg hér á landi og við ætlum okkur að nýta þau. Við viljum styrkja umgjörð atvinnulífsins og stjórnkerfið þarf að leggja sitt af mörkum og einbeita sér meira að verðmætasköpun, hvort sem það er á sviði viðskipta, lista og menningar, nýsköpunar, ferðaþjónustu, auðlindanýtingar og þannig mætti áfram telja. Þetta er nýr tónn sem stjórnmálamenn slá í dag en það mun gagnast samfélaginu til lengri tíma.“

Kvikmyndir skapa gjaldeyri

Hvað auknar gjaldeyristekjur varðar þá segir Lilja að horfa verði til fleiri þátta en ferðaþjónustu, sjávarútvegs og orkuframleiðslu. Þar nefnir hún hugverkaiðnað og kvikmyndaframleiðslu sem dæmi, en hún lagði nýverið fram frumvarp þar sem lagt er til að stærri kvikmyndaverkefni geti sótt um allt að 35% endurgreiðslu framleiðslukostnaðar.

„Það mun hvort tveggja í senn bæta samkeppnisstöðu okkar til muna, því það er mikil samkeppni um verkefni sem þessi á milli landa, og skapa auknar gjaldeyristekjur og störf hér á landi,“ segir Lilja.

„Það eru nú þegar stór verkefni í burðarliðnum og margir hafa sýnt því áhuga að koma hingað með verkefni á næstu misserum og árum. Þá eru einnig ýmis tækifæri til að auka tekjur af sviðslistum og tónlist, svo dæmi séu tekin, en þar eigum við mikið af hæfileikaríku fólki sem mun skapa mikil verðmæti, bæði í efnahagslegu og félagslegu tilliti.“

Nánari umfjöllun má lesa í Morgunblaði dagsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK