Spá um 350 kr. á lítrann rættist á methraða

Bensínverð hefur hækkað um 30 krónur á lítrann á rúmum …
Bensínverð hefur hækkað um 30 krónur á lítrann á rúmum tveimur vikum. mbl.is/Golli

Þórður Gunnarsson hagfræðingur bjóst við því að það tæki aðeins lengri tíma en tvær vikur fyrir bensínverð að fara í 350 krónur á lítrann, líkt og raunin varð í vikunni. Hann spáði því í þættinum Dagmál 1. júní síðastliðinn að lítraverð á bensíni næði þessari krónutölu fyrr en varði.

Verð á bensínlítranum var um 320 krónur um síðustu mánaðamót og hefur því víða hækkað um 30 krónur á rúmum tveimur vikum, þótt einhverjar bensínstöðvar bjóði upp á lægra verð.

„Ég hélt að þetta myndi taka svona mánuð, einn og hálfan, en ekki rúmlega tvær vikur. Ef við horfum á það hvernig hráolíumarkaðir eru núna og dísel og bensín, þá held ég að séu litlar líkur á öðru en að verð hækki meira en hitt, en það er auðvitað ekki hægt að fullyrða það,“ segir Þórður í samtali við mbl.is.

Honum fannst 350 króna spádómurinn alveg raunhæfur í byrjun júní en það kom honum á óvart hve hratt hann rættist.

Þórður segir ekkert í kortunum sem bendi til verðlækkana á …
Þórður segir ekkert í kortunum sem bendi til verðlækkana á næstunni. mbl.is/Ágúst Óliver

Ekkert sem bendir til lækkana til skemmri tíma 

Aðspurður hvort gera með ráð fyrir því að verð á bensíni haldi áfram að hækka svona hratt, segir Þórður:

„Eitt er hráolía og svo eru afurðirnar bensín og dísel. Það er hlutfallslega mjög mikið, sérstaklega af dísel, sem er keypt frá Rússlandi og ef mönnum er alvara með að hætta að kaupa frá Rússlandi, þá þarf að sigla með hana frá fjarlægari löndum og það verkar bara til verðhækkana frekar en hitt.“

Hann segir í raun ekkert sem bendi til þess til skemmri tíma að verð lækki, enda ekkert í kortunum sem ýti undir það.

„Besta lækningin við háu verði er hátt verð. Á endanum er þetta orðið það dýrt að það hlýtur að draga úr eftirspurn en ég held við séum ekki komin þangað ennþá.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK