Tíföldun tekna hjá Controlant

Guðmundur Árnason fjármálastjóri, Ásthildur Otharsdóttir stjórnarformaður og Gísli Herjólfsson forstjóri.
Guðmundur Árnason fjármálastjóri, Ásthildur Otharsdóttir stjórnarformaður og Gísli Herjólfsson forstjóri. Ljósmynd/Aðsend

Tekjur hátæknifyrirtækisins Controlant tífölduðust árið 2021 og námu tæpum níu milljörðum króna. Þetta kom fram á aðalfundi Controlant sem haldinn var á Grand Hótel í dag.

Hagnaður af starfseminni nam tæpum 1,4 milljörðum króna sem er verulegur viðsnúningur frá fyrra ári þegar 10,2 milljóna tap varð af rekstrinum, að því er segir í tilkynningu.

Mikill tekjuvöxtur og vaxandi umsvif skýrist að mestu af þjónustu við lyfjafyrirtækið Pfizer, sem notar lausnir frá Controlant við dreifingu Covid-19 bóluefna um allan heim. Alls kom Controlant að dreifingu og geymslu 3,5 milljarða bóluefnaskammta frá Pfizer árið 2021.

„Controlant hefur nýtt vel aðstæður undanfarinna ára og styrkt samkeppnisstöðu sína verulega. Við njótum mikils trausts meðal viðskiptavina okkar, sem hafa sóst eftir aukinni þjónustu og nánara samstarfi.

Við höfum tekið að okkur ný verkefni, aukið sjálfvirkni til að draga úr sóun og bætt gagnatengingar milli ólíkra kerfa og aðila svo dæmi séu nefnd,“ er haft eftir Gísla Herjólfssyni forstjóra í tilkynningu.

Á aðalfundinum var stjórn Controlant endurkjörin, en auk Ásthildar Otharsdóttur stjórnarformanns sitja í stjórn þau Frosti Ólafsson, Kristín Friðgeirsdóttir, Jørgen Rugholm og Trausti Þórmundsson.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK