Sextíu ný póstbox á leiðinni til landsins

Póstbox Póstsins.
Póstbox Póstsins. Ljósmynd/Aðsend

Pósturinn á von á 60 nýjum póstboxum til landsins og mun afgreiðslustöðum því fjölga töluvert á næstu vikum og mánuðum. Pósturinn er nú þegar með yfir 100 afgreiðslustaði á landsvísu, bæði póstbox og pósthús, en auk þeirra nýtur heimsendingaþjónustan alltaf nokkurra vinsælda.

Nýju póstboxin verða sett upp víðs vegar um landið, um 30 á höfuðborgarsvæðinu og 30 á landsbyggðinni, að því er kemur fram í tilkynningu frá Póstinum. 

„Póstboxin hafa aldrei verið vinsælli en núna, enda þægileg og fljótleg leið til að sækja og senda pakka. Með nýju póstboxunum býður Pósturinn viðskiptavinum sínum upp á þétt net sjálfsafgreiðslustöðva, samtals á um 170 stöðum,“ segir Sigríður Heiðar, forstöðumaður söludeildar Póstsins í tilkynningu.

„Þetta eykur sveigjanleika og hraða þar sem póstboxin eru staðsett í alfaraleið um allt land og flestöll eru þau opin allan sólarhringinn. Viðskiptavinir vilja geta sótt og sent pakka þegar þeim hentar og þar sem þeim hentar og þetta er gott tækifæri til að mæta þörfum þeirra enn betur.“

Sigríður Heiðar, forstöðumaður söludeildar Póstsins.
Sigríður Heiðar, forstöðumaður söludeildar Póstsins. Ljósmynd/Aðsend

Má bjarga sér í ýmsum aðstæðum

Viðskiptavinir geta stjórnað því hvar þeir fá pakka afhenta en það er einfalt að gera í appi Póstsins eða á Mínum síðum á posturinn.is.

„Þannig má bjarga sér í ýmsum aðstæðum. Til dæmis geturðu pantað vindsængina sem þú gleymdir á leiðinni í útileguna eða sundfötin eftir að þú ert komin í bústaðinn. Þú pantar á netinu og lætur senda pakkann í póstbox í nágrenninu, eins og hentar hverju sinni,“ segir Sigríður.

Nú er verið að velja staði til að setja niður nýju póstboxin, með tilliti til magns og eftirspurnar.

„Viðskiptavinir eru duglegir að láta okkur vita hvar þeir vilja fá póstbox og við tökum tillit til óska þeirra. Við styðjumst einnig við gögn úr starfseminni við val á stöðum sem henta viðskiptavinum okkar best og við erum óhrædd að breyta til ef þarfirnar breytast. Við viljum reyna að komast enn nær viðskiptavininum svo það sé alltaf stutt í næsta afhendingarstað. Pósturinn sker sig frá öðrum dreifingarfyrirtækjum í því hversu víðtækt dreifingarkerfið okkar er. Við berum út pakka og bréf til allra heimila og fyrirtækja landsins,“ segir Sigríður.

Póstbox eru umhverfisvænni

Hún segir að stefnt sé að því að sjálfbærni verði samofin menningu Póstsins og með því að stytta og auðvelda ferðir viðskiptavina geti fyrirtækið dregið úr umhverfisáhrifum af starfseminni.

„Það er umhverfisvænni afhendingarleið ef viðskiptavinirnir sækja sjálfir pakka í póstbox frekar en að gera sér ferð á pósthús eða fá pakkann heim að dyrum. Þá skiptir máli að póstbox séu í nálægt heimilum og vinnustöðum viðskiptavina svo þeir geti nýtt tækifærið til að sækja pakka þegar þeir eru á ferðinni á annað borð. Best er auðvitað að nýta sér umhverfisvæna ferðamáta eins og að ganga eða hjóla eftir pakkanum. Þess vegna leggjum við svona mikla áherslu á að byggja upp þétt net póstboxa og fjölgunin nú er stórt skref í átt að þessu markmiði.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK