A-FKA ganga til liðs við Atvinnufjelagið

FKA.
FKA. Ljósmynd/Aðsend

Atvinnurekendadeild Félags kvenna í atvinnulífinu (A-FKA) er gengin til liðs við Atvinnufjelagið (AFJ), félag lítilla og meðalstórra fyrirtækja, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Aðkoma A-FKA að Atvinnufjelaginu þéttir enn frekar raðirnar hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og styrkir til muna starf Atvinnufjelagsins. Unnt verður að fylgja eftir af auknum þunga kröfunni um að hagsmunir allra fyrirtækja í landinu verði hafðir að leiðarljósi í samskiptum annars vegar aðila vinnumarkaðarins og hins vegar vinnumarkaðarins og stjórnvalda,“ segir í tilkynningunni.

Sigmar Vilhjálmsson formaður Atvinnufjelagsins.
Sigmar Vilhjálmsson formaður Atvinnufjelagsins. mbl.is/Hallur

380 fyrirtæki í A-FKA

Þá kemur fram að í A-FKA séu um 380 lítil og meðalstór fyrirtæki í hinum ýmsu starfsgreinum en A-FKA er vettvangur kvenna innan Félags kvenna í atvinnurekstri sem eiga og reka fyrirtæki.

„Það er mikið fagnaðarefni að fá A-FKA til liðs við Atvinnufjelagið. Konur í atvinnurekstri eru gríðarlega stór hluti af litlum og meðalstórum fyrirtækjum og sameinuð náum við meiri og skjótari árangri í þeim mörgu og brýnu hagsmunamálum okkar sem bíða úrlausnar,“ er haft eftir Sigmari Vilhjálmsson, formanni Atvinnufjelagsins.

„Félagskonur A-FKA standa að rekstri fjölda lítilla og meðalstórra fyrirtækja og konur í atvinnurekstri þurfa sterka rödd á þessum vettvangi. Við teljum að sú rödd eigi góðan hljómgrunn innan Atvinnufjelagsins,” er haft eftir Aðalheiði V. Jacobsen stjórnarkonu A-FKA.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK