„Þetta er mikil bylting og flýtir verulega fyrir því ferli sem felst í því að endurfjármagna húsnæðislán,“ segir Helgi Teitur Helgason, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Landsbankans, í samtali við ViðskiptaMogga, en Landsbankinn hefur fyrstur banka lokið við að innleiða rafrænar þinglýsingar á íbúðalánum í útibúum bankans.
Þá segir hann að samstarf við Stafrænt Ísland hafi nýst vel við þá vinnu sem fólst í því að búa til stafrænt ferli þinglýsinga.
„Það eru allir, bæði einkaaðilar og opinberir aðilar, að leita eftir því að finna lausnir sem einfalda verkferla og auðvelda fólki lífið. Hér hefur okkur tekist að búa til stafrænt ferli sem gerir það að verkum að umsóknir um endurfjármögnun íbúðalána renna á áður óséðum hraða í gegnum kerfið,“ segir hann.
„Viðskiptavinir þurftu áður sjálfir að fara með skuldabréfin í þinglýsingu hjá sýslumanni og bíða síðan í eina til tvær vikur, jafnvel lengur ef álagið var mikið, og koma bréfinu aftur til bankans til afgreiðslu. Þetta heyrir nú sögunni til, því nú geta viðskiptavinir mætt í hvaða útibú sem er og kvittað undir skuldabréfið. Bankinn þinglýsir því síðan með rafrænum hætti og lánið er tilbúið til útgreiðslu samdægurs.“