„Það er verið að bjóða upp í indíánadans“

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa.
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa. Ljósmynd/Aðsend

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, segir löggjöf Alþingis um áfengissölu innanlands vera óskýra og ósanngjarna. Fyrirtækið sé tilbúið að hefja sölu áfengis í vefverslun ef lögin verða endurskoðuð en ætli ekki að vera á „gráu svæði“ þangað til.

„Það er verið að bjóða upp í indíánadans og ég skil ekki af hverju þetta er ekki unnið betur,“ segir hann.

Eins og greint hef­ur verið frá hófu Heim­kaup að selja bjór, létt­vín og annað áfengi á vef­versl­un sinni í fyrradag. Fyr­ir­tækið ger­ir þetta í gegn­um danska fyr­ir­tækið Heim­kaup ApS sem sel­ur áfengið. Hef­ur uppá­tækið vakið mis­jöfn viðbrögð. Ýmsir hafa gagn­rýnt þetta og þar með talið aðrar vef­versl­an­ir.

Sigurður segir það ósanngjarnt að neytendur á Íslandi geti pantað sér áfengi af erlendum aðilum en ekki af innlendum netverslunum. „Ég skil það þess vegna mjög vel að fólk sé að taka þennan slag.“ 

Segir hann að lögin þurfi að vera endurskoðuð sem fyrst og þau séu allt of óskýr eins og þau eru núna.

Sigurður segir að þau hjá Hagkaupum hafi hugsað málið í kjölfar þess að fréttir bárust af áfengissölu Heimkaupa og komist að þeirri niðurstöðu að þau ætli sér ekki að feta í fótspor fyrirtækisins.

Skrítið hvernig þetta er meðhöndlað af löggjafanum

„Við ætlum ekki að taka þátt í þeim gjörningum sem eru í gangi núna. Við viljum ekki vera á gráa svæðinu,“ segir Sigurður. Hann bætir við að tímabært sé að fá skýrari reglur og skýr fyrirmæli frá stjórnvöldum hvað varðar sölu áfengis í netverslunum.

Að hans mati er það skrítið hvernig löggjafinn er að meðhöndla þetta mál. Þrátt fyrir það segir hann ekkert annað í stöðunni en að bíða eftir því að breytingar verði gerðar á lögunum. „Við ætlum ekki að blanda okkur í þann slag sem hafinn er. Við ætlum að leyfa þingmönnum að setja skýrari reglur og vinna með þann ramma þegar hann er klár.“

Bætir hann þó við að hann skilji alveg hamaganginn í öðrum verslunum. Metur hann það samt sem svo að Hagkaup sé þannig stórfyrirtæki að þeim beri skylda að vera ekki á gráu svæði lagalega séð.

Tilbúnir fyrir áfengissölu

Spurður hvort að þeir séu tilbúnir til að selja áfengi í vefverslun ef að breyting yrði á lögunum svarar Sigurður því játandi. „Þegar að línurnar skýrast, sama hvenær það verður, vitum við í hvaða átt við ætlum að hlaupa.“ Bætir hann við að Hagkaup hóf að flytja inn áfengi fyrir fimm árum síðan og því allar boðleiðir til taks fyrir áfengissölu hjá Hagkaupum. 

„Við erum komnir með reynslu í innkaupum á áfengi og þannig erum við búnir að undirbúa okkur fyrir breytingar.“ Vísar hann að auki til vefverslunar Hagkaups sem er að hans mati mjög góð. „Ég vona bara að ég fái að upplifa það,“ segir hann í lokinn og vísar til sölu áfengis í matvöruverslunum. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK