Meira en áratugagömlu milljarðamáli lokið

Héðinsreitur í Vesturbæ Reykjavíkur. Þar ætlaði félagið Héðinsreitur að ráðast …
Héðinsreitur í Vesturbæ Reykjavíkur. Þar ætlaði félagið Héðinsreitur að ráðast í uppbyggingu fyrir fjármálahrunið sem ekki varð af. Löng og ströng málaferli fylgdu í kjölfarið. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Héðinsreit ehf. til að greiða Íslandsbanka samtals 928 milljónir auk dráttarvaxta frá árinu 2012. Í síðasta ársreikningi Héðinsreits var gjaldfallin skuld félagsins við Íslandsbanka metin á 3,2 milljarða, en á móti hafði Íslandsbanki fengið greiðslu upp á 677 milljónir og 75 milljónir á síðustu árum eftir að fasteignin Vesturgata 64 var seld á nauðungaruppboði að kröfu Reykjavíkurborgar.

Málaferlin teygja sig aftur til 2009

Mál Héðinsreits hefur verið í dómskerfinu frá því í byrjun árs 2009 en félagið stefndi þá Byr sparisjóði. Hafði Byr gert fjármögnunarsamning við Héðinsreit gegn veðrétti í Vesturgötu 64, en það er reiturinn gegnt Sorpu og Olís við Ánanaust. Sumarið fyrir hrun fjármálakerfisins rifti Byr samningnum og taldi Héðinsreitur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess og stefndi félagið Byr í febrúar 2009.

Íslandsbanki eignaðist svo Byr árið 2011 og þar með kröfuna á Héðinsreit. Hæstiréttur komst sama ár að þeirri niðurstöðu að viðurkennd væri skaðabótaskylda Byrs á tjóni Héðinsreits.

Byr sparisjóður gerði upphaflega fjármögnunarsamning vegna framkvæmdanna, en rifti samkomulaginu …
Byr sparisjóður gerði upphaflega fjármögnunarsamning vegna framkvæmdanna, en rifti samkomulaginu í júní 2008. Taldi Héðinsreitur að þar með ætti félagið bætur inni hjá Byr. mbl.is/Eggert

677 milljónir á læstum reikningi

Nauðungaruppboð á eigninni fór svo fram árið 2016 að beiðni Reykjavíkurborgar vegna vangoldinna fasteignagjalda. Morgunblaðið hefur áður fjallað um uppboðið og kaupendur lóðarinnar hér.

Deilt var um úthlutun á söluverði eignarinnar, en Hæstiréttur komst árið 2019 að þeirri niðurstöðu að í hlut Íslandsbanka kæmu 677 milljónir, en að þær skyldu varðveittar á sérgreindum reikningi meðan beðið væri endanlegrar niðurstöðu í öðru dómsmáli varðandi skaðabótakröfu sem Héðinsreitur hafði uppi gegn Íslandsbanka.

Landsréttur komst svo að þeirri niðurstöðu í febrúar að ekki væru skilyrði fyrir skaðabótum til Héðinsreits frá Íslandsbanka og var meðal annars vísað til þess að Héðinsreitur hefði ekki leitað fjármögnunar hjá öðrum fjármögnunarfyrirtækjum á þessum tíma til að reyna að lágmarka skaðann. Hæstiréttur hafnaði síðar að málinu yrði áfrýjað.

Tekið upp aftur eftir 10 ára frestun

Í kjölfarið var það mál sem dæmt var í dag í héraðsdómi tekið upp að nýju. Málið var upphaflega þingfest í maí 2012, en ákveðið var að fresta því í nóvember sama ár meðan beðið yrði niðurstöðu í skaðabótamálinu. Stóð sú frestun í heild yfir í tæplega 10 ár. Er þar í raun um að ræða hefðbundið skuldamál vegna greiðslu á láninu.

Íslandsbanki hefur þegar fengið um 750 milljónir vegna málsins eftir …
Íslandsbanki hefur þegar fengið um 750 milljónir vegna málsins eftir nauðungaruppboð á lóðinni, en eftirstandandi krafa verður líklega vel á þriðja milljarð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fór Íslandsbanki fram á greiðslu frá Héðinsreit upp á 928 milljónir (höfuðstóll fjármögnunarinnar og vextir til 2012) auk dráttarvaxta síðan árið 2012, að frádregnum 677 milljónum sem höfðu verið geymdar á læstum reikningi og nýlega komist í hendur bankans og 75 milljóna sem einnig höfðu verið greiddar.

Héðinsreitur krafðist frávísunar, en einnig að viðurkenndur yrði réttur til að skuldajafna kröfu Íslandsbanka við þriggja milljarða bótakröfu Héðinsreits gegn Byr. Niðurstaða málsins var sem fyrr segir að Héðinsreitur ætti að greiða Íslandsbanka 928 milljónir auk dráttarvaxta frá því í janúar 2012 að frádregnum 677 og 75 milljónum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK