Hættir hjá Áslaugu hljóti hann kjör í stjórn Festi

Magnús Júlíusson, aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Magnús Júlíusson, aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Ljósmynd/Haraldur Jónasson

Magnús Júlíusson, aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, mun hætta sem aðstoðarmaður ef hann hlýtur kjör í stjórn Festi. Þetta staðfestir Magnús í samtali við mbl.is í dag.

Magnús sækist nú eftir stjórnarsetu í Festi en tilnefningarnefnd fyrirtækisins hefur tilnefnt hann ásamt átta öðrum í stjórn félagsins fyrir komandi hluthafafund sem verður 14. júlí. Fimm verða kjörnir í stjórnina.

Segir hann ástæðu þess að hann muni hætta sem aðstoðarmaður vera nýleg lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands sem tóku gildi 1. janúar 2021. Í lögunum er tekið fram að störf aðstoðarmanna ráðherra teljist full störf og að þeim sé því óheimilt að sinna aukastörfum samhliða aðstoðarmennskunni. 

Mögulega stutt stopp sem aðstoðarmaður

Magnús tók nýlega við sæti í stjórn Rio Tinto á Íslandi. Segir hann það ekki falla undir lögin um varnir gegn hagsmunaárekstrum þar sem að hann er í stjórninni sem fulltrúi ríkisins. Segir hann ekkert koma í veg fyrir að sitja þar áfram þótt hann fái kjör í stjórn Festi. „Það er engin hagsmunartenging þar,“ segir Magnús.

Aðspurður segir hann það vissulega vera leiðinlegt að þurfa að segja upp störfum sem aðstoðarmaður ráðherra ef svo skyldi fara að hann fengi kjör í stjórn Festi.

Þess má geta að ef Magnús hlýtur kjör í stjórn Festi mun hann aðeins hafa unnið sem aðstoðarmaður í sjö mánuði enda var hann ráðinn sem slíkur þann 17. desember 2021. 

Seldi til Festi fyrir tveimur árum síðan

Magnús er annar stofnenda Íslenskrar orkumiðlunar ehf., fyrirtækis sem var selt til Festi árið 2020. Fyrir söluna átti Festi fimmtán prósent í félaginu og var kaupverðið 722,5 milljónir sem var greitt með hlutum í Festi og með reiðufé. 

Magnús seldi síðan hluta hlutabréfa sinna í Festi fyrir 48,5 milljónir króna í fyrra í gegnum félagið Betelgás ehf. sem er að fullu í eigu Magnúsar. Samkvæmt tilkynningu Kauphallarinnar í kjölfar sölunnar voru enn hlutir í Festi að verðmæti 133 milljónum í eigu fjárhagslega tengdra aðila Magnúsar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK