„Allra minnsti hluthafinn“ leggur til breytinguna

Pétur Þorsteinsson, prestur Óháða safnaðarins.
Pétur Þorsteinsson, prestur Óháða safnaðarins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á hluthafafundi Festar, sem fram fer á fimmtudaginn í næstu viku, munu hluthafar þurfa að taka afstöðu til tillögu um að breyta nafni félagsins úr Festi í Sundrungu. Þetta varð ljóst í gærkvöldi þegar endanleg dagskrá fundarins var send út.

Sá sem leggur tillöguna fram segist þó ekkert endilega leggja til að hún verði samþykkt, heldur sé hún sett fram til að vekja fólk til umhugsunar um aðferðina í kringum uppsögn forstjóra félagsins.

„Legg ekkert endilega til að þetta verði samþykkt“ 

Séra Pétur Þorsteinsson í Óháða söfnuðinum staðfestir við mbl.is að hann hafi sett tillöguna fram sem hluthafi í félaginu, en tekur fram að það hafi verið gert af yfirvegun og með það í huga að vekja athygli á aðferðinni við uppsögn Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra félagsins.

„En ég legg ekkert endilega til að þetta verði samþykkt,“ segir hann.

Hann segir mikilvægt að komandi kynslóðir geti séð síðar meir að hann hafi verið ósáttur með þessa ákvörðun og að útfæra hafi mátt málin á annan veg. Spurður hvort hann sé almennt ósáttur með að skipt sé um forstjóra félagsins segir hann svo ekki vera.

„Það er í lagi að skipta um hest í miðri á eða skipta um liðstjóra, en að farið yrði að þessu öðruvísi og sýna meiri kærleika í því hvernig þetta kæmi til heldur en að vera að drífa í þessu svona.“

Tengist ekki ásökunum á fyrrverandi stjórnarformann

Bætir Pétur við að hann vilji að fólki verði það ljóst þegar það skoði málið síðar meir, „að þarna hafi eitthvað átt sér stað og hvort það séu gammar sem eru búnir að éta Festi frá, þá verði niðurstaðan sú að þetta hafi verið rætt á fundinum að menn hafi ekki verið alveg sáttir“.

Spurður hvort tillagan tengist á einhvern hátt málefnum fyrrverandi stjórnarformanns félagsins og frásagnar Vítalíu Lazarevu, þar sem hún ásakaði hóp manna um að hafa brotið á sér kynferðislega í heitum potti segir Pétur svo ekki vera.

„Alls ekki, tengist því engan veginn.“

Upphaflega stuðningur við Kristján og hvalveiðar

Pétur segist þá ekki heldur vera stór hluthafi í Festi. „Ég er hreinlega allra minnsti hluthafinn sem er hægt að finna í þessu félagi.“

Segist hann hafa keypt hluti í Esso á sínum tíma til að styðja við Kristján Loftsson og hvalveiðar og hafi þannig endað með hlut í N1.

„Guð skapaði hvalina til að éta þá og sem aldrei fyrr núna og það þarf að veiða sem mest af þeim til að halda fæðukeðjunni við. Þannig keypti ég allra minnstu einingu sem hægt var að kaupa til að sýna samstöðu við Hval sem átti hluta í Esso á sínum tíma,“ segir Pétur að lokum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK