1,1 milljarðs gjaldþrot hótelkeðju

City Park Hótel við Ármúla 5.
City Park Hótel við Ármúla 5. mbl.is/Baldur

Skiptum á City park hótel ehf., þriðja og síðasta félaginu sem tengdist hótelkeðjunni Capital Hotels, hefur verið lokið, en samtals fengust 350 milljónir upp í veðkröfur, eða sem nemur um 75%. Ekkert fékkst hins vegar í aðrar réttlægri kröfur, en heildarkröfur í búið námu tæplega 880 milljónum. Gjaldþrot félagsins nemur því um 530 milljónum.

Áður hafði skiptum verið lokið á CapitalHotels ehf. og Hótelkeðjunni ehf., en CapitalHotels var móðurfélag hinna tveggja. Öll félögin voru úrskurðuð gjaldþrota árið 2020.

City Park Hotel og Capital Inn

Undir merkjum keðjunnar voru rekin hótelin City Park Hotel í Ármúla 5 og Capital Inn við Suðurhlíð 35. Þá hafði rekstur City Center Hotel við Austurstræti 6 einnig verið rekið sem annað dótturfélag, en Árni Valur Sólonsson, annar eigandi hótelkeðjunnar ásamt eiginkonu sinni Svanlaugu Þráinsdóttur, sagði við Fréttablaðið í júlí 2020, eftir að félögin höfðu verið tekin til gjaldþrotaskipta, að City Center Hotel hefði verið selt út úr rekstrinum fyrr á árinu 2020. Þá hafði félagið einnig áformað að sjá um rekstur Marriot hótelsins í Keflavík og hafði tryggt sér sérleyfi frá Marriot erlendis. Þau áform breyttust hins vegar og tók annar rekstraraðili við því hóteli.

Sagði Árni jafnframt við Fréttablaðið að heimsfaraldurinn hefði verið meginástæða þess að hótelkeðjan hefði verið tekin til gjaldþrotaskipta.

Gjaldþrotin samtals upp á 1,07 milljarða

Greint var frá skiptalokum CapitalHotels fyrr á þessu ári, en lýstar kröfur námu samtals 998,9 milljónum í þrotabúið. Fengust 486,9 milljónir upp í veðkröfur, en ekkert í aðrar kröfur. Var gjaldþrot þess því rúmlega 510 milljónir.

Skiptum á Hótelkeðjunni ehf. lauk hins vegar í fyrra, en engar eignir fundust upp í 34,2 milljóna lýstar kröfur.

Samtals var því gjaldþrot þessara þriggja félaga samtals um 1,07 milljarðar.

Síðustu ársreikningum fyrir bæði CapitalHotels og City Park Hótel var skilað fyrir árið 2019. Tekjur City Park höfðu aukist milli ára úr 323 milljónum í 404 milljónir, en rekstrargjöld að sama skapi hækkað úr 325 milljónum í 403 milljónir. Um 1,4 milljóna afgangur var því fyrir fjármagnsliði það ár, en 32 milljóna tap eftir fjármagnsliði. Var eigið fé félagsins neikvætt um 51 milljón í lok árs 2019.

Tekjur CapitalHotels lækkuðu hins vegar talsvert milli áranna 2018 og 2019 og fóru úr 294 milljónum í 116 milljónir. Rekstrarkostnaður lækkaði einnig úr 361 milljón í 175 milljónir. Var tap bæði árin, 113 milljónir árið 2018 og 84 milljónir árið 2019. Í árslok 2019 var eigið fé félagsins neikvætt um 185 milljónir.

Í báðum ársreikningum kemur fram að álit stjórnar félaganna sé að þau séu rekstrarhæf miðað við stöðuna í árslok 2019 þegar ferðamenn fari að koma aftur til landsins, en þar er líklegast verið að vísa til áhrifa af heimsfaraldrinum.

Ítrekað til umfjöllunar

Starfsemi hótelanna var til umfjöllunar fjölmiðla árið 2019 í tengslum við atkvæðagreiðslu og verkföll Eflingar. Taldi Efling bæði að Árni Valur hefði meinað starfsfólki sínu að greiða atkvæði og síðar að hópuppsögn starfsfólks væri ólögmæt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK