Viðbrögð Samkeppniseftirlitsins komu á óvart

Orri Hauksson, forstjóri Símans, telur að franski fjárfestingasjóðurinn Ardian muni vilja semja um lægra kaupverð á Mílu eftir að andmælaskjal Samkeppniseftirlitsins (SKE) kvað á um það að kaupin gengju ekki í gegn án skilyrða.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.

Sjóðurinn telur sáttatillögur, sem hann hefur lagt fyrir SKE, íþyngjandi fyrir Mílu og því vilji hann ekki standa við núverandi kaupsamning.

Aðaláhyggjuefni SKE sé sterkt viðskiptasamband Símans og Mílu eftir að viðskiptin gangi í gegn.

„Míla er ekki seljanleg eign ef því fylgja ekki viðskipti við stærsta kúnnann, að minnsta kosti þann sem er með mestu viðskiptin við félagið í dag. Það getur vel verið að aðrir viðskiptavinir Mílu stækki umfram Símann í framtíðinni, sérstaklega þegar Míla er farin úr eignarhaldi Símans. Þá hafa keppinautar Símans meiri áhuga á því að versla við Mílu. Við teljum klárlega út frá samkeppnisvinklinum að þá sé þetta mjög jákvætt skref,“ segir Orri.

Slæm áhrif á markaðinn

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir eignarhald Símans á Mílu hafa slæm áhrif á markaðinn og hann voni að kaupin gangi í gegn. Hann gagnrýnir hve lengi málið var á borði SKE.

Salan var fyrst tekin til skoðunar hjá SKE í febrúar en áliti þess var skilað nú í júlí. Vinnsluhraðann segir Heiðar vera einsdæmi í Evrópu, um sé að ræða þrefalt lengri tíma en gengur og gerist í öðrum löndum.

„Þegar við erum með viðskipti sem sannarlega gagnast landinu og almenningi mjög mikið, finnst mér ekki sanngjarnt að taka sér svona langan tíma,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Þá segir hann að SKE hafi áður gert athugasemdir við eignarhald Símans á Mílu.

Sömuleiðis telur hann forsendur fyrir skilyrðum SKE ekki rökréttar.

Lengri umfjöllun um málið má nálgast í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK