Veita viðskiptavinum hugarró

Árni Rafn Gíslason, forstjóri HD.
Árni Rafn Gíslason, forstjóri HD. mbl.is/Árni Sæberg
HD er fyrirtæki sem ef til vill fáir þekkja en velti þó tæpum fimm milljörðum króna í fyrra og er með um 170 starfsmenn.
HD er stærsta iðnþjónustufyrirtæki landsins. Starfsemi þess nær hringinn í kringum Ísland og teygir sig inn í allar helstu atvinnugreinar. Fyrirtækið hefur farið í gegnum fjórar sameiningar á undanförnum fimm árum, samhliða nýju eignarhaldi og uppkaupum á fyrirtækjum í skyldum rekstri. Í dag er það mikilvægur þjónustuveitandi fyrir grunnstoðir íslensks efnahagslífs.

Árni Rafn Gíslason forstjóri tekur á móti blaðamanni í höfuðstöðvum félagsins við Vesturvör í Kópavogi. Húsnæðið er frábærlega staðsett með útsýni út á haf og baðstaðinn Sky Lagoon sem næsta nágranna.

„SÍA III, sjóður í rekstri Stefnis, kom inn í félagið fyrir 5 árum sem nýr kjölfestueigandi. Sjóðurinn kom strax með þessa framtíðarsýn að kaupa fleiri fyrirtæki og sameina undir einum hatti. Þá taldi hann að það fælist tækifæri í að hækka tæknistigið innan HD, sem við og gerðum.

Mikil umbreyting á félaginu

Við höfum þannig frá 2017 keypt Vélaverkstæði Jóhanns Ólafssonar í Hafnarfirði, Vélar ehf. í Vatnagörðum, Deili í Mosfellsbæ og NDT á Akureyri. Þetta er mikil umbreyting á félaginu. Lengst af hét það Hamar, og byrjaði með tveimur mönnum, bíl og kistu af verkfærum árið 1998 og þróaðist fljótlega yfir í eina öflugustu stálsmiðju landsins,“ segir Árni. Kaupin á Deili hafi verið fyrsta yfirtakan í kjölfar fjárfestingar SÍA III. Þau séu einnig þau stærstu sem farið hefur verið í, enda velti Deilir á þeim tíma um helmingi þess sem HD gerði. Árni segir samlegð með félögunum hafa verið verulega, þar sem félögin voru að þjónusta mismunandi atvinnugreinar en sameinað félag var þannig komið með þjónustu við allar undirstöðuatvinnugreinar Íslands.

„Lokaskrefið í þessari sameiningu var svo að taka upp nýtt nafn fyrir sameinað félag, þ.e. HD, samhliða heildarendurmörkun á vörumerki og útliti félagsins.“

Keyptu Vélar ehf.

Næsta fyrirtækið sem HD keypti, á eftir Deili, voru Vélar ehf. Að sögn Árna sinnir það innflutningi á búnaði fyrir útgerð og fiskeldi og veitir þjónustu við þau sömu tæki.

„Þau kaup voru gott skref inn í þann geira til að ná bæði sérhæfingu og góðri fótfestu á markaðnum.“

NDT, sem eru nýjustu kaup félagsins, hefur að sögn Árna sérhæft sig í skaðlausum ástandsprófum, eins og titringsprófunum, hljóðbylgjuprófunum og öðru fyrirbyggjandi viðhaldi.

Nánar var rætt við Árna Rafn í ViðskiptaMogganum í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK