Ekki er ólíklegt að fasteignaverð taki dýfu nú þegar vaxtastig hækkar og væntingar eru uppi um aukið framboð á húsnæði. Þetta segir Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskóla Íslands. Húsnæðisverð er nú sögulega hátt frá öllum mælikvörðum séð og ekki ósennilegt að bóla hafi myndast á fasteignamarkaðnum að mati Más.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, mánudag.
„Þótt það séu engar vísbendingar komnar fram um það enn sem komið er, þá er ekki ólíklegt að fasteignaverð taki dýfu niður á við þegar vaxtastig er að hækka og væntingar eru uppi um aukið framboð,“ segir hann, enda hafi slíkt áður gerst.
„Það er eins og margir hafi gleymt því að fasteignaverð lækkaði um næstum 20% frá 2007 til 2010 og á sama tíma var samanlögð verðbólga í kringum 30%.“
Már telur að fyrstu merki um verðlækkanir á fasteignamarkaði hér á landi yrðu sá tími sem tekur að selja íbúðir.
„Um leið og þær tölur fara að hækka, dagar frá því íbúð fer á sölu og þar til hún selst, fást vísbendingar um hvort lækkanir séu í kortunum,“ segir Már. „Þetta er svipað og frá 2007 til 2008. Markaðurinn fór að kólna strax árið 2007 en fáir tóku eftir því.“
Spurður hvort þrengri reglur um greiðslumat, sem Seðlabankinn setti í fyrrahaust, hafi áhrif á eftirspurnina segir Már að þær reglur hafi aðallega komið sér illa fyrir fyrstu kaupendur. „En vissulega hefur það keðjuverkandi áhrif,“ segir hann og nefnir fólk sem þarf að stækka við sig og selja ódýrari eign.
„Ef fyrstu kaupendur eiga erfiðara með að fara á markað, þá eru hugsanlega einhverjar sölur sem voru í pípunum ekki að ganga í gegn,“ segir hann. Greiðslubyrðarhlutfall fasteignalána takmarkast nú almennt við 35% en við 40% fyrir fyrstu kaupendur.
Meira í Morgunblaðinu í dag.