Kaupir 50% í Jarðborunum fyrir 1,13 milljarða

Reikna megi með að fjárfesting Archer verði endanlega frágengin á …
Reikna megi með að fjárfesting Archer verði endanlega frágengin á þriðja fjórðungi þessa árs. Ljósmynd/Jarðboranir

Alþjóðlega bor- og þjónustufyrirtækið Archer Ltd. hefur keypt 50% hlutafjár í Jarðborunum hf. fyrir rúmlega 1,13 milljarða íslenskra króna, eða um 8,25 milljónir bandaríkjadala. Jarðboranir hf. verða því í jafnri eigu fjárfestingafélagsins Kaldbaks ehf., dótturfélags Samherja hf, og Archer eftir viðskiptin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jarðborunum.

Fjárfesting Archer í Jarðborunum er sögð munu styðja við frekari vöxt fyrirtækisins, en Archer býr yfir meira en fjögurra áratuga reynslu á sviði borana, þjónustu við olíuleitarfyrirtæki og rannsókna á borholum.

Þá er fyrirtækið með starfsemi á 45 olíuborpöllum í fjórum heimsálfum og rekur 81 færanlegan bor á landi í Suður-Ameríku.

Mun efla verkefnaöflun erlendis

Reikna megi með að fjárfesting Archer verði endanlega frágengin á þriðja fjórðungi þessa árs þar sem hún er háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

„Með viðskiptunum kemur þessi trausti aðili inn í hluthafahópinn. Við erum bara mjög ánægðir með þetta,“ segir Sigurður Sigurðsson, forstjóri Jarðborana hf, í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir hann að með viðskiptunum fái Jarðboranir sterkan og reynsluríkan bakhjarl inn í félagið.

„Hann mun bara efla okkur í verkefnaöflun, sérstaklega erlendis. Við lítum á þetta jákvæðum augum, fyrir okkur og starfsmennina.“

Hluti af mikilvægustu orkugjöfum framtíðarinnar

Dag Skindlo, forstjóri Archer, segir í tilkynningunni að jarðvarmi hafi beina skörun og samlegðaráhrif við kjarnaþjónustu Archer.

„Jarðboranir hf. á sér langa rekstrarsögu í alþjóðlegri starfsemi og er virt vörumerki í jarðhitaborunum og þjónustu við borholur. Jarðvarmamarkaðurinn er hluti af mikilvægustu orkugjöfum framtíðarinnar og á eftir að vaxa verulega á næstu áratugum að mati Alþjóðlegu orkumálastofnunarinnar (IEA) og annarra sérfræðinga í greininni,“ segir Skindlo.

„Áætlað er að árlegur fjöldi borhola, þar sem borað er eftir jarðhita, muni aukast úr 200 í 700 fyrir árið 2030. Ennfremur mun aukin áhersla á hitaveitur í Evrópu knýja áfram vöxt og tækniframfarir. Sérhæfing Archer er á sviði borana og þjónustu við borholur.

Við teljum að við getum nýtt færanlega bora okkar í jarðhitaverkefnum framtíðarinnar og nýtt alþjóðleg tengsl Archer við vöxt starfsemi á sviði jarðhitaborana. Við hlökkum til að halda áfram að þróa og stækka Jarðboranir hf. ásamt stjórnendum fyrirtækisins og meðhluthafa okkar, Kaldbaki.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK