Svanhildur Hólm: Árangur sem er þess virði að verja

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. mbl.is/Unnur Karen

Kjaraviðræðurnar í haust þurfa að vera skynsamlegt samtal um að skapa vinnufrið og tryggja jafnvægi í efnahagslífinu til að gera okkur áfram kleift að stækka kökuna sem er til skiptanna. Ekki skeytasendingar og hárblásarar í fjölmiðlum sem afvegaleiða umræðu og skapa óraunhæfar væntingar um niðurstöðu.

Þetta segir Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs í grein sem birt var í ViðskiptaMogganum í gær.

Í greininni fjallar Svanhildur um það sem hún kallar „verðbólgu orðanna“ og bendir á að fjölmiðlar séu iðulega hrifnir af fólki sem talar í fyrirsögnum, helst með stríðsletri.

„Þeir sem taka stórt upp í sig og eru alltaf tilbúnir að mála hlutina sterkum litum eru því oft vinsælir viðmælendur,“ segir Svanhildur.

Reynir á fjölmiðla

„Það má búast við mörgum hástigsfyrirsögnum næstu mánuði, enda kjaraviðræður fram undan. Þá reynir á fjölmiðla að kanna staðreyndir og birta ekki athugasemdalaust alls konar yfirlýsingar. Hvað sem manni finnst t.d. um vaxtahækkanir Seðlabankans og áhrif þeirra er ekki í lagi að útvarpa því gagnrýnislaust að slíkar hækkanir séu stríðsyfirlýsing og einsdæmi í Evrópu, eins og Ríkisútvarpið leyfði viðmælanda sínum að gera í vor, þegar meirihuti seðlabanka álfunnar (og víðar) hafði gripið til sömu ráðstafana.“

Hún segir jafnframt að ef að fjölmiðlar vilji gegna því hlutverki sem þeim er ætlað, að miðla staðreyndum, ólíkum sjónarmiðum og stuðla að upplýstri umræðu, verði þeir að leggja meira á sig en að birta samfélagsmiðlafærslur og upphrópanir.

Þá segir Svanhildur að óvíða hafi verkalýðsfélög náð viðlíka árangri og hér á landi. Launafólk hafi fengið með lífskjarasamningunum hlut í hagvextinum, vinnuvikan hafi verið stytt, meðallaun séu með þeim hæstu í heimi og jöfnuður hérlendis sömuleiðis mestur.

„Þetta er árangur sem er þess virði að verja, en ekki stofna í hættu með óábyrgum kröfum,“ segir hún.

Grein Svanhildar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Verðbólga orðanna

Mér verður stundum hugsað til kennara sem ég hef haft í gegnum tíðina og hversu ólíkan stíl þeir höfðu í kennslu. Sumir brýndu raustina reglulega og reyndu að yfirgnæfa bekkinn til að ná athygli en aðrir hækkuðu nánast aldrei róminn og maður varð að leggja við hlustir til að geta fylgst með því sem þeir voru að segja.

Ég man til dæmis eftir því að hafa verið með kennara sem þagnaði og beið þegar lætin urðu of mikil í stað þess að taka á okkur hárblásarann. Þannig fluttist ábyrgðin á vinnufriðnum yfir á okkur nemendurna og í minningunni er þetta mikilvæg lexía í framkomu og samskiptum.

Að tala í fyrirsögnum

Fjölmiðlar eru iðulega hrifnir af fólki sem talar í fyrirsögnum, helst með stríðsletri. Þeir sem taka stórt upp í sig og eru alltaf tilbúnir að mála hlutina sterkum litum eru því oft vinsælir viðmælendur. Það er líka eðli fjölmiðla að horfa á hið neikvæða eða afbrigðilega. Sem dæmi er það ekki frétt að tæplega 200 þúsund manns hafi fengið greidd rétt laun um mánaðamót, en eðlilega verður það að frétt þegar hóteleigandi hlunnfer starfsmann sinn.

Þetta tvennt gerir það kannski að verkum að það hleypur verðbólga í orð, en alveg eins og verðbólgan minnkar virði krónunnar draga endurtekin gífuryrði í umræðu úr áhrifum hennar. Þetta ætti að vera umhugsunarefni fyrir þá sem eru áberandi í opinberri umræðu. Ef fólk talar venjulega í hástigi, hvernig ætlar það þá að bregðast við ef syrtir í álinn?

Skýrslur í tætara

Það má búast við mörgum hástigsfyrirsögnum næstu mánuði, enda kjaraviðræður fram undan. Þá reynir á fjölmiðla að kanna staðreyndir og birta ekki athugasemdalaust alls konar yfirlýsingar. Hvað sem manni finnst t.d. um vaxtahækkanir Seðlabankans og áhrif þeirra er ekki í lagi að útvarpa því gagnrýnislaust að slíkar hækkanir séu stríðsyfirlýsing og einsdæmi í Evrópu, eins og Ríkisútvarpið leyfði viðmælanda sínum að gera í vor, þegar meirihuti seðlabanka álfunnar (og víðar) hafði gripið til sömu ráðstafana.

Það er líka vissulega vinnusparandi, freistandi og oft smellavænlegt að birta fréttir þar sem staðreyndum um efnahagmál er hafnað með litríku orðalagi um skýrslur sem eigi að fara í tætara, sérfræðingaveldi og ánauð vinnuaflsins án þess að krefja þann sem talar rökstuðnings.

Ef fjölmiðlar vilja gegna því hlutverki sem þeim er ætlað, að miðla staðreyndum, ólíkum sjónarmiðum og stuðla að upplýstri umræðu, verða þeir að leggja aðeins meira á sig en að birta samfélagsmiðlafærslur og upphrópanir. Kannski er líka kominn tími til að draga úr þessari sjálffæðandi hringrás samfélagsmiðla og hefðbundinna fjölmiðla, þar sem færsla verður að frétt sem verður svo aftur að færslu sem getur af sér aðra frétt og svo framvegis, án þess að taka upp símann, ræða við nokkurn mann eða kanna heimildir.

Árangur sem hægt er að verja

En þá aftur að kjaramálunum. Flest launafólk á aðild að verkalýðsfélagi á Íslandi og óvíða hafa verkalýðsfélög náð viðlíka árangri. Launafólk fékk með lífskjarasamningunum hlut í hagvextinum, vinnuvikan hefur verið stytt, meðallaun eru með þeim hæstu í heimi og jöfnuður hérlendis sömuleiðis mestur. Þetta er árangur sem er þess virði að verja, en ekki stofna í hættu með óábyrgum kröfum.

Verðbólga og dýrtíð er vandamál, en það er afar hæpið að hrópa sífellt að allt sé svo dýrt á Íslandi og ætla svo að leysa það með því að hækka laun. Þessi laun eiga nefnilega stóran þátt í því að að Ísland er dýrt og launahækkanir umfram svigrúm gera ekkert nema kynda verðbólgubálið.

Kjaraviðræðurnar í haust þurfa að vera það: Viðræður. Þær þurfa að vera skynsamlegt samtal um að skapa vinnufrið og tryggja jafnvægi í efnahagslífinu til að gera okkur áfram kleift að stækka kökuna sem er til skiptanna. Ekki skeytasendingar og hárblásarar í fjölmiðlum sem afvegaleiða umræðu og skapa óraunhæfar væntingar um niðurstöðu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK