Segja Ásgeir Jónsson hafa tök á vopnum hins óvænta

Það standa mörg spjót á Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra þessa dagana.
Það standa mörg spjót á Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra þessa dagana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur ágæt tök á því sem kallað er vopn hins óvænta. Hann er ekki fyrirsjáanlegur í orðum eða gerðum, hann tekur erfiða slagi við banka, stjórnkerfið og verkalýðsforystuna ef þess þarf og reynir að miðla upplýsingum með öðruvísi hætti en forverar hans hafa gert.

Þetta segja þeir Stefán Einar Stefánsson, fv. fréttastjóri á Morgunblaðinu, og Hörður Ægisson, ritstjóri Innherja á visir.is, í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála. Í þættinum er rætt um stöðu Ásgeirs og Seðlabankans og möguleika hans á að takast á við þær áskoranir sem eru uppi í hagkerfinu. Verðbólga mælist nú 9,9%, það stefnir í að kaupmáttur rýrni að einhverju leyti og framundan eru kjaraviðræður. Allt kallar þetta á viðbrögð og aðgerðir Seðlabankans sem hefur þurft að taka óvinsælar ákvarðanir og mun að öllum líkindum þurfa að taka fleiri slíkar.

„Hann kemur eins og stormsveipur inn í þetta starf og er til í að taka oft mjög óvinsæla slagi,“ segir Hörður í þættinum og rifjar upp nokkur mál þar sem Ásgeir hefur þurft að láta til sín taka, meðal annars gagnvart bönkum og lífeyrissjóðum í upphafi kórónuveiru-faraldursins og í samskiptum við aðra starfsmenn Seðlabankans.

Í þættinum er rætt um þann tíma sem liðinn er frá því að Ásgeir var skipaður seðlabankastjóri sumarið 2019 sem og samskiptin við aðstoðarseðlabankastjórana sem þeir Hörður og Stefán Einar segja að séu ekki til þess fallin að veita Ásgeiri stuðning.

„Það er margt sem bendir til þess að Fjármálaeftirlitið hafi verið í hálfgerðu lamasessi og undir óstjórn í aðdraganda þessarar sameiningar,“ segir Stefán Einar þegar rætt er um það hvernig sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins (FME) hafi gengið og rifjar upp nokkur dæmi, til dæmis af því þegar FME misreiknaði sig um tæpa 300 milljarða í skýrslu um útlán bankanna.

Nú liggur fyrir að stefnt að er að því að seðlabankastjóri verði formaður fjármálaeftirlitsnefndar bankans, líkt og til stóð í upphafi. Rifjað er upp að þegar Alþingi vann að lagabreytingum sem fólu í sér að færa FME undir Seðlabankann var upphaflegu frumvarpi breytt, eftir þrýsting af hálfu FME, í þeim tilgangi að gera þáverandi forstjóra FME að formanni nefndarinnar. Í þættinum er bent á að stjórnmálamenn hafi nú áttað sig á þeim mistökum sem þar voru gerð og nú standi til að breyta því.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan.mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK