Sænskur auðmaður drukknaði í Karíbahafi

Eyjan Saint Barthélemy í Karíbahafi.
Eyjan Saint Barthélemy í Karíbahafi. Ljósmynd/Starus

Sænski auðmaðurinn og forleggjarinn Tomas Fischer er látinn, en hann drukknaði nærri heimili sínu á karabísku eyjunni Saint Barthélemy í gær.

Frá þessu greina sænskir fjölmiðlar í dag, þar á meðal dagblaðið Aftonbladet.

Fischer varð í fyrstu þekktur fyrir störf sín á hlutabréfamarkaðnum, en hann hóf starfsferil sinn hjá verðbréfamiðlaranum Carnegie Fondkommission.

Stofnaði félag sem Glitnir keypti

Síðar stofnaði hann eigið félag, sem nefndist Fischer & Partners, en það varð að sjötta stærsta verðbréfafyrirtæki Norðurlanda áður en íslenski bankinn Glitnir keypti það árið 2006. 

Kaupin kostuðu Glitni 425 milljónir sænskra króna.

Hálfu ári síðar, eða í ársbyrjun 2007, skipti fyrirtækið um nafn og starfaði þaðan í frá undir nafni Glitnis í Svíþjóð.

Eftir þjóðnýtingu Glitnis, í lok september 2008, var þessi hluti fyrirtækisins seldur sænska bankanum HQ fyrir 60 milljónir sænskra króna, eða um sjöunda hluta af kaupverðinu sem greitt var rúmu einu og hálfu ári áður.

Fjármagnaði rannsókn á máli Olof Palme

Á miðjum níunda áratugnum keypti Fischer bókaforlagið Författarförlaget, sem var í kjölfarið nefnt Bokförlaget Fischer & Co.

Þá komst hann einnig í kastljós fjölmiðla í tengslum við morðið á forsætisráðherranum Olof Palme, eftir að í ljós kom að hann hafði fjármagnað úr eigin vasa rannsóknir einkaspæjarans Ebbe Carlsson.

Eyjan Saint Barthélemy er sú eina af karabísku eyjunum sem lengi var sænsk nýlenda, en Loðvík 16. Frakkakonungur lét Svíþjóð eyna í té árið 1784.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK