Play tapar tveimur milljörðum en stefnir í plús

Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play. Ljósmynd/Play

Tap flugfélagsins Play á öðrum ársfjórðungi þessa árs nam 14,3 milljónum dala, eða sem nemur um 2 milljörðum íslenskra króna. Samanlagt tap félagsins það sem af er ári nemur 25,6 milljónum dala, eða um 3,5 milljörðum.

Þetta má sjá í nýjum árshlutareikningi sem félagið sendi frá sér í dag. Forstjóri félagsins segir að stefnt sé að því að rekstrarafkoma síðari hluta ársins verði jákvæð og að 200 starfsmenn verði ráðnir fyrir næsta vor.

Play flutti á öðrum ársfjórðungi samtals 181 þúsund farþega og gerir nú ráð fyrir að heildarfjöldi farþega á árinu verði um 800 þúsund. Þá spáir félagið því að velta ársins verði um 20 milljarðar.

Afkoman viðbúin

Rekstrartap félagsins fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir nam 14,2 milljónum dala á fyrri hluta ársins, eða tæplega tveimur milljörðum. Í tilkynningu vegna uppgjörsins kemur fram að afkoman hafi verið viðbúin þar sem félagið hafi enn ekki náð tilætlaðri stærðarhagkvæmni.

Play átti í lok júní 39,5 milljónir Bandaríkjadala í handbært fé og að eiginfjárhlutfall félagsins hafi verið 13,4%.

Fram kemur að félagið hafi í júlí loks komist í fullan rekstur eftir að hafa skalað starfsemina upp í aðdraganda sumaráætlunar og að allt tengiflugskerfið sé nú komið af stað og að sex flugvélar séu í notkun.

Segir rekstur Play nú stöðugan

„Eftir flugtak og klifur síðustu mánaða er nú fyrst óhætt að segja að PLAY sé komið í farflugshæð. Í flugbransanum þýðir það að við séum orðin stöðug. Annar ársfjórðungur var síðasti hluti klifursins og nú á þriðja ársfjórðungi er viðskiptamódel félagsins loks orðið að veruleika,“ er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra félagsins.

Segir Birgir jafnframt að félagið sjái fram á hagfelldar ytri aðstæður þar sem eldsneytisverð fari ört lækkandi.

„Við sjáum fram á bjarta tíma, bókunarstaðan er sterk og til stendur að skila jákvæðri rekstrarafkomu á síðari helmingi ársins. Fólk er augljóslega hætt að setja COVID-19 fyrir sig þegar það tekur ákvörðun um að ferðast sem sést til dæmis á því að mun færri kaupa sér forfallavernd og þá er fólk farið að bóka flug lengra fram í tímann.“

Ætla að bæta við 200 starfsmönnum

Birgir segir stór verkefni framundan, meðal annars að taka á móti fjórum nýjum flugvélum sem bætast í flotann næsta vor og ráða inn áhafnir á þær vélar. Segir hann að 200 manns muni bætast við þá 300 sem þegar starfi hjá félaginu við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK