Lausafjárstaðan núna lágpunkturinn í áætlunum

Birgir Jónsson forstjóri Play.
Birgir Jónsson forstjóri Play. Ljósmynd/Play

Birg­ir Jóns­son, for­stjóri Play, segir í samtali við mbl.is að ekki séu neinar áætlanir um að fara í hlutabréfaútboð hjá flugfélaginu á komandi misserum.

„Við höfum alveg gefið það út að það er ekki í kortunum,“ segir Birgir.

Hann segir að lausafé Play sé núna um 39 milljónir Bandaríkjadalir og að það sé lágpunkturinn í áætlunum flugfélagsins.

„Við eigum ekki von á öðru en að þetta sé lágpunkturinn í lausafjáráætluninni enda umtalsvert fé. Það er ekkert í plönunum að fara í neitt útboð eða neitt slíkt til að fjármagna okkur.

Okkur gæti dottið í hug að gera eitthvað, kaupa flugvélar eða eitthvað svoleiðis, og þá þyrftum við kannski að sækja fé í það en ekki í reksturinn sjálfan,“ bætir Birgir við.

Birgir segir að fyrirtækið fari að skila hagnaði á seinni hluta ársins samkvæmt áætlun, en hann sagðist þó ekki geta sagt nákvæmlega til um það hvað áætlað sé að rekstrarhagnaður verði mikill í árslok.

„Við erum kannski ekkert í einhverjum myljandi hagnaði. Það breytist svakalega eftir því hvernig olíuverð er að þróast. Það er langt stærsta breytan í þessu.“

Umbreyting á rekstrinum í sumar

Stærðarhagkvæmni er einnig stór breyta í rekstri flugfélagsins. Birgir segir að um leið og flugfélagið hafi tekið í notkun allar sex flugvélarnar í sumar hafi mikil umbreyting á rekstrinum komið í ljós.

„Það þarf ekkert að fjölga fólki á skrifstofunni. Við erum með alla innviði til staðar og við höfum notað síðasta ár til að byggja hann upp. Það er það sem hrynur oftast og hefur gert það áður í íslenskum félögum þegar vöxturinn er svo mikill að innviðirnir í fyrirtækin ráði ekki við það.“

„Bara til þess að hafa flugrekstrarleyfi þarf að vera með ákveðinn fjölda af fólki og ákveðið skipurit sem breytir ekkert rosalega miklu hvort þú sért með þrjár eða sex vélar.“

200 störf auglýst á næstu dögum

Eins og áður hefur komið fram stendur til að fjölga flugvélunum úr sex vélum og upp í tíu fyrir næsta sumar. Birgir segir að flugvélarnar verði teknar í notkun á tímabilinu apríl til júní á næsta ári og verða vélarnar í langtímaleigu.

Hann telur að þau 200 störf sem verður ráðið í hjá Play muni verða auglýst á næstu dögum. Í kringum 50 flugmenn verða ráðnir og 150 flugþjónar.

„Það er alltaf mikil ásókn í þessa störf, sérstaklega sem flugþjónar. Veturinn fer svolítið í þetta hjá mannauðsteyminu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK