Stýrivextir hækkaðir um 0,75 prósentur

Seðlabankinn.
Seðlabankinn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,75 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 5,5%.

„Samkvæmt uppfærðri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í ágústhefti Peningamála eru horfur á tæplega 6% hagvexti í ár sem er 1,3 prósentum meiri vöxtur en spáð var í maí. Stafar það einkum af þróttmeiri einkaneyslu og hraðari bata í ferðaþjónustu. Störfum heldur áfram að fjölga og atvinnuleysi að minnka og meiri spenna hefur myndast í þjóðarbúinu en áætlað var í maí,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Fram kemur að verðbólguhorfur hafi áfram versnað. Verðbólga hafi aukist í júlí og hún hafi mælst 9,9%. Gert er ráð fyrir því að hún nái hámarki undir lok þessa árs og fari í tæplega 11%.

„Verri verðbólguhorfur endurspegla kröftugri umsvif í þjóðarbúskapnum en gert var ráð fyrir í maí og þrálátari hækkanir á húsnæðismarkaði auk meiri alþjóðlegrar verðbólgu. Þá hafa verðbólguvæntingar hækkað enn frekar á flesta mælikvarða,“ segir í yfirlýsingunni.

„Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK