„Hefur verið mjög gaman, en vesenið er ekki búið“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Sumarið í ferðaþjónustunni hefur í heildina litið verið mjög jákvætt þar sem ferðaþjónustuaðilar eru flestir mjög ánægðir. Fjölgun ferðamanna eftir faraldurinn hefur verið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og meðaldvalartími hvers ferðamanns hefur aukist sem og virði hvers ferðamanns þegar horft er til eyðslu og þar með útflutningstekna fyrir þjóðfélagið. Hins vegar er talsverð óvissa framundan og áskoranir sem greinin þarf að glíma við. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Júlí var metmánuður

Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofunnar hefur fjöldi gistinátta á landinu í einum mánuði aldrei verið meiri en nú í júlí, en þá voru skráðar 1.550 þúsund gistinætur. Er það um 150 þúsund gistinóttum fleira en var í júlí 2017, sem var áður sá mánuður sem átti metið.

Fyrr í mánuðinum var svo greint frá því að 234 þúsund erlendir farþegar hefðu farið af landi brott um Keflavíkurflugvöll í júlí, en það er í fyrsta skipti eftir faraldur sem það fjölgar miðað við sama mánuð árið 2019. Ekki er þó enn búið að ná sama heildarfjölda yfir árið í heild og var fyrir faraldur, en í lok júlí voru ferðamenn orðnir 870 þúsund, en til samanburðar voru þeir fyrstu sjö mánuði ársins 2018 1,3 milljónir.

Telur að spár upp á 1,6 til 1,7 milljónir farþega gangi eftir

mbl.is heyrði í Jóhannesi til að fara yfir árið hingað til og horfurnar inn í veturinn. „Í heildina litið þá eru þessar tölur ekki að koma á óvart. Þetta hefur farið af stað mun hraðar en vonað var og spáin fyrir árið hefur farið úr 1,2 milljónum farþega upp í 1,6 eða 1,7 milljónir farþega á síðustu mánuðum,“ segir Jóhannes og bætir við að sér sýnist að sú tala eigi eftir að ganga eftir.

„Svo er dvalarlengdin líka að aukast sem er mjög jákvætt. Það gefur fyrirheit um að verðmæti muni aukast miðað við það sem við sáum fyrir faraldurinn,“ segir Jóhannes jafnframt og vísar til þess sem ferðaþjónustan hefur lengi horft til, þ.e. að lengja dvöl hvers og eins ferðamanns og þannig fá þá til að verja meiri fjárhæðum yfir tímabilið.

Spurður út í áhrif gossins á ferðamannafjöldann í júlí segir Jóhannes að hann telji gosið klárlega hafa áhrif, en að erfitt sé að átta sig nákvæmlega á hversu mikil áhrifin séu. Þannig viti hann að flugfélögin hafi fengið kipp í sölu þegar gosið byrjaði, en þegar bókunartími sé stuttur sé óvíst hvort það sé vegna þessa atburðar eða bara að fólk sé fyrst þá að panta miða. Hann segir gosið hins vegar klárlega hafa verið góða landkynningu sem vinni með öðrum kostum.

Jóhannes segir að eldgosin á Reykjanesskaga séu klárlega góð landkynning, …
Jóhannes segir að eldgosin á Reykjanesskaga séu klárlega góð landkynning, en að bein áhrif á fjölda ferðamanna séu óljós. mbl.is/Sigurður Bogi

Fólk horfir til þess að ferðast sjaldnar en í lengri tíma 

Eins og spáð hafði verið þegar faraldrinum lauk segir Jóhannes að ein helsta ástæðan fyrir þessum skjóta viðsnúningi sé uppsöfnuð ferðaþrá víða um heim. „Fólk vildi bara komast af stað,“ segir hann. Þá segir hann það samróma álit frá kollegum hans erlendis að þessi ástæða í bland við að fólk hafi setið á stærri ferðasjóði en vanalega eftir tvö ár af litlum sem engum ferðalögum séu helstu ástæður þess að greinin hafi tekið svona hratt við sér.

Jóhannes segir þó fleiri ástæður mögulega liggja á bak við þær breytingar sem eru að sjást á lengd ferðalaga og nefnir þar fyrst að fyrir faraldurinn hafi ferðafólk í auknum mæli horft á ferðalög út frá loftlagsmálum. Eigi það sérstaklega við um Evrópumarkaðinn. „Fólk horfir til þess að ferðast sjaldnar en í lengri tíma í hvert sinn.“

„Sá markaður er ekkert kominn í gang enn þá“

Hvort þessi jákvæða þróun á ferðaþjónustumarkaðinum muni halda áfram er þó deilt um og segir Jóhannes að talsverð óvissa sé uppi um þróunina. Nefnir hann að hærri verðbólga á alþjóðavísu með lækkandi kaupmætti og áhrif af innrás Rússa í Úkraínu gætu haft talsverð áhrif. Enn sé of snemmt að segja til um áhrif á veturinn, en undanfarin ár hafi bókunartíminn alltaf verið að styttast og því sé enn ekki komin raunsæ mynd af bókunum frá nóvember og inn í veturinn.

Til viðbótar bendir Jóhannes á að einn af þremur mikilvægustu vetrarmörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu hafi enn ekki opnast af neinu ráði eftir faraldurinn, en það er Asíumarkaður og þá sérstaklega Kínamarkaður. „Sá markaður er ekkert kominn í gang enn þá.“ Ásamt Bandaríkja- og Bretlandsmarkaði er þetta öflugasti markaðurinn þegar kemur að vetrarferðum og segir Jóhannes að verðbólga á þeim mörkuðum og mikil fyrirséð hækkun á orkuverði í Bretlandi í vetur gæti haft einhver áhrif á ferðagetu fólks þaðan.

„Töluvert mikil óvissa inn í veturinn“

„Ég held að það sé töluvert mikil óvissa inn í veturinn,“ segir Jóhannes og bætir við: „Veturinn er ekki óskrifað blað, en það vantar kafla inn í hann.“

Til viðbótar við ytri aðstæður sem erfitt er að ráða við hér á landi hefur í sumar verið talsverður skortur á starfsfólki í ferðaþjónustu og metur Jóhannes það sem svo að enn vanti um 6-8% af starfsfólki í greinina. Er það þó aðeins betri staða en víða í Evrópu, en ETC (evrópska ferðamálaráðið) gerir ráð fyrir að enn vanti í tíunda hvert starf í ferðaþjónustu í Evrópu, samtals í um 1,2 milljónir starfa.

Fjöldi gistinnátta hefur aldrei verið jafn mikill og í júlí …
Fjöldi gistinnátta hefur aldrei verið jafn mikill og í júlí þegar seldar gistinætur voru yfir 1,55 milljónum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki skrítið að það taki tíma að fá fólk til baka

Jóhannes segir mjög jákvætt hversu vel hafi gengið af afla tekna í greininni í sumar og það hafi aðstoðað við að bæta upp tekjuþurrð og hjálpað við þann skuldavanda sem mörg fyrirtæki í greininni glími við. Hann tekur þó fram að flest þeirra séu alls ekki komin fyrir vind og muni áfram glíma við skuldavanda næstu ár.

Hann segir skiljanlegt að það taki tíma fyrir starfsfólk að færa sig að fullu aftur yfir í atvinnugrein þar sem hafi orðið heimshrun með tilheyrandi tilhnikun á gildismati fólks hvernig það sér sig sjálft og samfélagið eftir faraldurinn. „Það er ekki skrítið að það taki fólk tíma að koma til baka þegar það hefur kannski tvisvar verið rekið á stuttum tíma,“ segir hann um það ástand sem var í gegnum faraldurinn.

Telur Jóhannes að sérstaklega muni ganga hægt að þjálfa upp og mennta sérhæft starfsfólk í greininni og vísar þar meðal annars til þjóna og kokka, en til viðbótar sé skortur á leiðsögufólki og ökumönnum stærri bifreiða svo eitthvað sé nefnt. Segir hann að Íslendingar muni að einhverju leyti mæta þessari eftirspurn, en að það líti út fyrir að það verði að stórum hluta fólk sem komi erlendis frá sem muni fylla upp í þennan skort.

Einhverjir þurft að loka vegna mönnunarvanda

Þegar Jóhannes er beðinn um að horfa til vetrarins og næsta sumars segir hann að erfitt sé að spá fyrir um gengi greinarinnar og það helgist af fyrrnefndum atriðum. Þ.e. hvort utanaðkomandi aðstæður muni hafa áhrif á fjölda þeirra sem ætli að sækja landið heim og svo hvort að takist að manna þá innviði og þjónustu sem þurfi fyrir ferðaþjónustuna. Þannig segist hann hafa heyrt af því að einhverjir ferðaþjónustuaðilar hafi þurft að loka eða takmarka mikið starfsemi sína núna þegar skólafólk hóf nám að nýju í ágúst. Það komi ofan á að fjölmargir eigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja í greininni hafi staðið langar vaktir í sumar vegna mönnunarvandans.

„Allt í allt erum við mjög ánægð með árið, en það er óvissa framundan. Þetta hefur verið mjög gaman, en vesenið er ekki búið,“ segir Jóhannes að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK