Telja 32 stunda vinnuviku ekki raunhæfa kröfu

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA
Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA

„Ég held að stutta svarið sé að við teljum þetta ekki vera raunhæfa kröfu,“ segir Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, um kröfu sem flest eða öll stéttarfélög iðnaðarmanna fara fram á um 32 stunda vinnuviku.

Ragnar segir styttingu dagvinnutíma mjög kostnaðarsama fyrir atvinnulífið.

Valkostirnir séu að framleiða minna, með tilheyrandi tekjutapi, eða greiða meiri yfirvinnu með tilheyrandi hækkun launakostnaðar.

„Við höfum verið að tala fyrir auknum sveigjanleika í kjarasamningum. Það getur alveg falið í sér að gefa starfsmönnum kost á að vinna fjögurra daga vinnuviku fyrir þá sem það hentar,“ bætir Ragnar við í samtali við mbl.is.

Sagt var frá því í Morgunblaðinu í dag að Félag vélstjóra og málmtæknimanna, VM, hefði lagt fram kröfugerð sína um önnur atriði en launaliði fyrir viðsemjendur SA í síðustu viku. Meðal helstu atriða var krafan um að vinnuvikan verði stytt í 32 klukkustundir. 

Það sama á við um önnur félög iðnaðarmanna, eftir því sem best er vitað. Virkur vinnutími félaga í VM er í dag 36 klukkustundir. 

Frekar draga úr yfirvinnu en að fækka dagvinnustundum

VM fer einnig fram á að yfirvinnuálag verði 1,15 prósent fyrir alla yfirvinnu sem þýði að föst prósenta verði 84 prósent. Þá eru gerðar kröfur um að aðfangadagur og gamlársdagur verði frídagar launamanna, sem og að frídagar sem lenda á helgi færist yfir á næsta virka dag.

Ragnar segir kröfu iðnaðarmanna um mikla hækkun yfirvinnu samhliða vinnutímastyttingu, svo ekki sé minnst á fimm aukafrídaga á ári, gera það að verkum að fyrir starfsmann sem vinnur 36 stundir á viku hækki vikulaun hans um 20-25%.

Ragnar segir SA einnig hafa talað fyrir lægra yfirvinnuálagi gegn hækkun dagvinnutímakaups.

„Mikill skortur er á iðnmenntuðu starfsfólki og því nokkuð ljóst að fyrirtækin þurfa að kaupa meiri yfirvinnu af starfsfólki ef til vinnutímastyttingar kemur.“

Spurður hvort einhver rök séu með frekari styttingu vinnuvikunnar, þá eins og rannsóknir hafa sýnt fram á að færri stundir geti aukið afköst, segir Ragnar að yfirvinna hafi aukist eftir kórónuveirufaraldurinn, meðal annars vegna skorts á iðnmenntuðu starfsfólki.

„Ef það hefði tekist að auka svo mikið framleiðnina á hvern starfsmann í Covid þá sæjum við ekki þessa miklu aukningu aftur í yfirvinnu. En auðvitað eru öll fyrirtæki að skoða hvernig hægt sé að auka framleiðni.“

„Í lífskjarasamningnum var búin til umgjörð um samninga milli atvinnurekenda og launafólks um að setjast niður og ræða skipulag vinnunnar með það að markmiði að auka framleiðni á unna stund, sem þá gæti haft vinnutímastyttingu í för með sér.“

„Það er auðvitað aðferðin sem við viljum sjá að menn noti til þess að draga úr yfirvinnu vegna þess að þannig verður raunverulegur vinnutími styttur; að yfirvinna minnki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK