Verðbólgan náð hámarki

Una Jónsdóttir aðalhagfræðingur Landsbankans og Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Una Jónsdóttir aðalhagfræðingur Landsbankans og Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Samsett mynd.

„Ég held að þetta renni svolítið stoðum undir þá skoðun okkar að verðbólga hafi náð hámarki og muni á næstunni hjaðna áfram smám saman. Þannig að þetta er jákvætt,“ segir Una Jónsdóttir, aðalhagfræðingur Landsbankans, en verðbólga síðustu 12 mánuði mælist nú 9,3%.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, tekur í sama streng og segir tölurnar auka líkurnar á því að við höfum komist yfir versta verðbólguhjallann. 

Landsbankinn hafði fyrr í mánuðinum spáð 9,6% verðbólgu en uppfærði spána þegar tölur um íbúðaverð bárust í síðustu viku. Þá var því spáð að verðbólga yrði 9,4%. Íslandsbanki gerði slíkt hið sama og lækkaði sína spá einnig niður í 9,4%.

Í takti við spár

„Þetta er eiginlega í takti við það sem við spáðum,“ segir Una í samtali við mbl.is og bætir við að tölurnar hafi því ekki komið henni á óvart.

Verðbólga fór hæst í 9,9% í júlí, lækkaði síðan í 9,7% í ágúst og eins og áður segir er hún nú 9,3% í september.

Una segir tölurnar sýna okkur að verðbólgan sé að hjaðna „og við gerum ráð fyrir þeirri þróun áfram en það er mjög langt í það að hún komist niður í það sem að æskilegt getur talist“. Hún bendir á að verðbólgumarkmið Seðlabankans sé 2,5% en við séum aftur á móti enn vel fyrir ofan 9%. 

Léttir að það séu engar jarðsprengjur

Jón Bjarki segir í samtali við mbl.is það vera ákveðinn létti að engar jarðsprengjur séu í nýjustu tölum. Ekkert sem dúkki allt í einu upp sem hækkunarvaldur og allt sé í takti við það sem við var að búast og vonast var eftir.  

„Innflutningsverðlagið er líka alltaf að verða stöðugra. Ákveðnir þættir, eins og eldsneyti, eru að lækka þannig að heilt yfir eru þetta jákvæðar tölur og samsetningin eykur líkurnar að okkar mati að við séum búin að sjá það versta í verðbólgunni,“ bætir Jón Bjarki við.

Þá segir hann það sérstaklega gleðilegt að íbúðaverðið sé að ná meiri stöðugleika. „Ég held að það sé langþráð hjá seðlabankafólki og gæti verið mikilvægt innlegg í vaxtaákvörðunina í næstu viku.“

Stefnum í eðlilegra ástand

Í riti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika, sem kom út í morgun, segir að nú séu komnar fram fyrstu vísbendingar um kólnun á íbúðamarkaði. Eignum á sölu hefur fjölgað og kaupsamningum fer fækkandi.

„Ég held að þetta sé bara mjög eðlileg þróun. Verðið var búið að hækka svo mikið og spennan var búin að vera svo mikil á markaði að það er ekkert skrýtið að við förum að sjá aðeins meiri hægagang á markaði,“ segir Una.

Hún bætir við að nú stefni í raun í mun eðlilegra ástand, enda hafi verið óeðlilega mikið að gera á fasteignamarkaði síðustu misserin. Markaðurinn muni samt halda áfram að rúlla þó það verði kannski ekki með sama hraða.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK