Ljósbrá ráðin forstjóri PwC

Ljósbrá Baldursdóttir.
Ljósbrá Baldursdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Ljósbrá Baldursdóttir endurskoðandi hefur verið ráðin forstjóri PwC en hún hefur gegnt stöðu sviðsstjóra endurskoðunar hjá fyrirtækinu frá árinu 2014.

Ljósbrá tekur við starfi forstjóra frá og með 1. október. Ráðningin markar tímamót hjá félaginu því hún er fyrsta konan sem gegnir stöðu forstjóra hjá PwC á Íslandi í 98 ára sögu þess, að því er kemur fram í tilkynningu.

Friðgeir Sigurðsson, fráfarandi forstjóri PwC, mun starfa áfram innan félagsins sem yfirlögfræðingur og sérfræðingur í skatta- og fyrirtækjalögfræði.

Ljósbrá hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2002. Hún hlaut löggildingu í endurskoðun árið 2006. Áður en hún menntaði sig í viðskiptafræðum árið 2000 og síðar endurskoðun, hafði hún lokið kennaramenntun og kenndi í Háteigsskóla um 4 ára skeið á árunum 1996-2000.

Hún er ennfremur afar fær bridge-spilari, að því er segir í tilkynningunni, en hún var um árabil í kvennalandsliði Íslands og hefur margoft spilað fyrir Íslands hönd á erlendri grundu. Hún er auk þess eina konan sem hefur orðið Íslandsmeistari í bridge í opnum flokki karla og kvenna.

Mikill heiður

„Það er mér mikill heiður að taka við starfi forstjóra í þessu trausta og þekkta fyrirtæki á sérfræðiþjónustumarkaði. Ég þekki innviði félagsins vel og hversu öflugt og hæft starfsfólk félagið hefur á að skipa. Ég tek við góðu búi þar sem PwC hefur verið að vaxa og eflast undanfarin ár. Stefnan er sett á áframhaldandi vöxt en á sama tíma að halda uppi framúrskarandi þjónustustigi,“ segir Ljósbrá í tilkynningunni.

„Á undanförnum árum hefur útvistun á þjónustu til sérfræðifyrirtækja og eftirspurn eftir ráðgjöf vaxið mikið um allan heim, með áherslu á sjálfbærni í rekstri og góða stjórnunarhætti. Við reiknum með að vöxtur PwC hérlendis verði ekki síst á þessu sviði á komandi árum, enda PwC annað tveggja stærstu ráðgjafafyrirtækja á heimsvísu. Ég hlakka mikið til að takast á við þær áskoranir sem starf forstjóra PwC felur í sér og að vinna áfram með þeim frábæra hópi starfsmanna og viðskiptavina sem félagið býr að.”

Vignir Rafn Gíslason, stjórnarformaður PwC, bætir við:

„Við tilkynnum með stolti og ánægju um ráðningu Ljósbrár Baldursdóttur í starf forstjóra PwC. Hún er gríðarlega öflug og hefur auk þess frammúrskarandi þekkingu á fagsviðinu. Þá vil ég þakka kærlega fráfarandi forstjóra, Friðgeiri Sigurðssyni, fyrir hans frábæru störf á undanförnum árum. Við munum góðu heilli búa áfram að hans kröftum innan félagsins.

Það er okkur mikill styrkur að fá Ljósbrá til að móta áfram veg félagsins og vera leiðtogi hjá því öfluga teymi sérfræðinga sem hjá fyrirtækinu starfar.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK