Dregur framboð sitt til baka vegna afarkosta OR

Petrea Ingileif Guðmundsdóttir og Bjarni Bjarnason.
Petrea Ingileif Guðmundsdóttir og Bjarni Bjarnason. Ljósmynd/Samsett

Petrea Ingileif Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Sýnar, hefur ákveðið að draga til baka framboð sitt til áframhaldandi stjórnarsetu í Sýn.

Hún segir ástæðuna vera að Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitur Reykjavíkur (OR), hafi sett eiginmanni hennar Benedikt K. Magnússyni, fjármálastjóra OR, afarkosti vegna starfs síns, haldi hún áfram í stjórn Sýnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem hún sendi á fjölmiðla í kvöld.

Hún segir að það sé mat OR að stjórnarseta hennar í Sýn hafi í för með sér að Benedikt, eiginmaður Petreu, geti ekki sinnt starfi sínu sem skyldi vegna hagsmunaárekstra. Áframhaldandi stjórnarseta hennar myndi leiða til brottvísunar Benedikts úr starfi.

Ljósleiðarinn er í eigu OR.

Víkur ávallt er málefni Ljósleiðarans eru rædd

Petrea segir enn fremur að þegar málefni Ljósleiðarans hafi verið tekin fyrir hafi hún ávallt vikið af stjórnarfundum. Lögfræði álit liggur fyrir sem segir að ekki sé um hagsmunaárekstur að ræða.

OR sendi frá sér tilkynningu í kjölfar yfirlýsingar Petreu.

Geti ekki sinnt starfi sínu með fullnægjandi hætti

Bjarni segir þar að framkvæmdastjóri fjármála OR, eiginmaður Petreu, beri ábyrgð á öllum fjármálum OR og vegna tengsla við stjórnarformann Sýnar þurfi að takmarka aðgengi hans að fjárhagslegum upplýsingum tengdum Ljósleiðaranum. 

Bjarni segir að það sé hans mat að framkvæmdastjóri fjármála geti ekki sinnt starfi sínu með fullnægjandi hætti þegar honum er meinaður aðgangur að fjármálum samstæðunnar. 

„Það felur meðal annars í sér nýlegt samkomulag milli Sýnar og Ljósleiðarans sem er báðum fyrirtækjum mikilvægt. Hann hefur hvorki aðgang að samkomulaginu sjálfu né þeim forsendum sem þar búa að baki,“ segir meðal annars í tilkynningu OR. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK