Vonar að síðasta hækkun hafi verið sú síðasta

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist vona að vaxtahækkunin frá því í byrjun þessa mánaðar verði sú síðasta í þessari verðbólguhrinu. Þetta kom fram í máli hans á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun.

Fór Ásgeir í framsögu sinni yfir að peningastefnunefnd bankans horfði til þess að miðað við núverandi ástand mætti gera ráð fyrir hraðri verðbólgulækkun þegar komið væri á síðari hluta næsta árs. Sagði hann að fasteignamarkaðurinn væri nú við það að komast í jafnvægi, en það helgaðist af því að Seðlabankinn hefði ákveðið að hækka vexti tiltölulega skarpt þegar verðbólgu fór að gæta.

„Það hefur skilað mjög góðum árangri,“ sagði Ásgeir. „Síðasta vaxtahækkun var 25 punktar [0,25 prósentustig] og við vonumst nú til þess að það verði okkar síðasta hækkun.“ Bætti hann við að bankinn teldi að með núverandi vöxtum upp á 5,75% gerði bankinn ráð fyrir að markmiðum um verðstöðugleika yrði náð innan ásættanlegs tíma.

Varðandi helstu blikur á lofti sagði Ásgeir að það væri óttinn um versnandi efnahagshorfur úti í heimi. Sagði hann mál manna að bæði í Evrópu og Bandaríkjunum mætti búast við samdrætti. Hér hefði þó tekist að halda vel jafnvægi.

Sagði Ásgeir að eftir mikinn hagvöxt á fyrri hluta ársins, beint eftir faraldurinn, þar sem einkaneysla hefði verið mjög mikil væru nú öll merki um að farið væri að hægja á hér á landi „og að við séum að fara að halda jafnvægi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK