Í fæðingarorlof eftir tvo mánuði á forstjórastól

Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi hf., móðurfélags N1, Krónunnar, Elko …
Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi hf., móðurfélags N1, Krónunnar, Elko og fleiri rekstrarfélaga. Stjórn félagsins lét það ekki stoppa sig við að ráða hana fyrir einum og hálfum mánuði þrátt fyrir að hún væri komin langt á leið með sitt þriðja barn. mbl.is/Hákon

Þrátt fyrir mikla hugafarsbreytingu undanfarin ár þegar kemur að fæðingarorlofi og aukinni orlofstöku feðra er enn nokkuð óvenjulegt að heyra af því að konur á forstjórastóli og þá sérstaklega hjá skráðum félögum, fari í fæðingarorlof. Hvað þá þegar aðeins tæplega tveir mánuðir eru frá ráðningu.

Á leið í fæðingarorlof tveimur mánuðum eftir ráðningu

Þetta er þó staðan hjá Ástu S. Fjeldsted, forstjóra Festi hf., móðurfélags N1, Krónunnar, Elko og fleiri rekstrarfélaga. Í gær á uppgjörsfundi félagsins var tilkynnt að hún færi í fæðingarorlof um mánaðarmótin, en hún er sett um miðjan næsta mánuð. Ásta telur stjórn Festi hafa sýnt mikilvægt fordæmi með ráðningunni, vitandi að hún væri komin langt á leið, en hún ræddi við mbl.is um fæðingarorlof stjórnenda, ákvörðunina að sækjast eftir forstjórastólnum og hvernig þetta endurspeglar stjórnendamenningu fyrirtækisins.

Ásta, sem sjálf varð fertug í byrjun árs, á fyrir tvö börn með eiginmanni sínum, Bolla Thoroddsen, annað sex ára og hitt þriggja ára. Bæði börnin eignuðust þau áður en hún hóf störf sem framkvæmdastjóri Krónunnar, eins dótturfélaga Festi. Í byrjun hausts var svo greint frá því að Ásta myndi taka við starfi sem forstjóri móðurfélagsins 7. september, en þá var hún gengin vel á sjöunda mánuð.

Vísvitandi ákvörðun að horfast í augu við framtíðina

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég tek við forstjórastöðu og því þekki ég ekki væntingar annarsstaðar eða í öðrum félögum,“ segir Ásta spurð um viðbrögð sem hún hafi fengið þegar niðurstaða lá fyrir um að hún yrði nýr forstjóri, en færi fljótlega í kjölfarið í fæðingarorlof. „En það má túlka þetta sem vísvitandi ákvörðun félagsins um að horfast í augu við framtíðina,“ bætir hún við.

Ásta segir að þó það sé ekki algilt, þá þurfi oftast tvo til að eignast börn. Undanfarin ár og áratugi hafi aukin viðurkenning orðið á því að karlmenn séu líka fjölskyldumenn, en á sama tíma þurfi líka að horfa til þess að á meðan konur geti verið mæður og fjölskyldukonur þá geti þær líka verið stjórnendur.

Hún segir aukinn orlofsrétt karla hafa jafnað aðstæður foreldra á vinnumarkaði með afgerandi hætti og að sjálf hafi hún séð hvernig þessi skref hafi verið tekin hratt og vel innan rekstrarfélaga Festi. Þannig fari karlar nú í auknum mæli frá vinnu vegna samfellds fæðingarorlofs og þannig jafnist staða kynjanna.

Afgerandi svör um starfsframa fólks í barneignum

Ásta segir að oft komi upp efasemdir hjá konum með áframhaldandi starfsframa vegna barneigna. „Ég hef orðið vitni að samtölum þar sem konur draga það í efa að geta tekið á sig vaxandi ábyrgð á sínum vinnustað og á sama tíma eignast börn,“ segir Ásta og bætir við að þarna gefi stjórn Festi nokkuð afgerandi svar við þeirri spurningu. Þá segir hún þetta jafnframt staðfestingu á því að innan fyrirtækisins sé viðurkennt að hægt sé að fá stöðuhækkun þrátt fyrir að vera með fjölskylduábyrgð.

Spurð út í ákvörðunina um að hafa gefið kost á sér sem forstjóri í haust og hvort það hafi skipt einhverju máli að hún vissi þá að hún væri ólétt segir Ásta að hún hafi vissulega verið meðvituð um áhrifin. Einhverjir hafa án efa velt því fyrir sér hvort þetta væri heppilegasti tíminn til að taka að sér nýtt og ábyrgðarmeira starf.

Ásta segir stjórn félagsins hafa gefið afgerandi svör með ráðningunni …
Ásta segir stjórn félagsins hafa gefið afgerandi svör með ráðningunni varðandi möguleika starfsfólks innan fyrirtækjasamstæðunnar á starfsframa. mbl.is/Hákon

„Í ferlinu fann ég aldrei að þetta væri hindrun

Ásta segir að hún hafi hins vegar spurt sig hvort hún væri að sækjast eftir starfi forstjóra með skammtíma- eða langtímahugsun að leiðarljósi. Þar sem svarið hafi verið langtímahugsun horfði hún til þess að fæðingarorlofið væri í raun stuttur tími, nokkrir mánuðir, en að verkefnin sem hún vilji taka að sér sem forstjóri væru til lengri tíma. Jafnframt sé stuðningur við konur í barneignum eitthvað sem fyrirtækið leggur áherslu á.

„Stjórn Festi hefur sýnt sterkt fordæmi með að taka þessa meðvituðu ákvörðun um að ráða mig vitandi að ég ætti von á barni,“ segir Ásta. Hún segir að undanfarið hafi hún heyrt víða, þar sem hún hefur komið, að fólk í atvinnulífinu hafi hrósað stjórninni fyrir að taka þessa ákvörðun. „Í ferlinu fann ég aldrei að þetta væri hindrun í veginum,“ segir hún um ráðningarferlið.

„Tækifærin í lífinu ekkert alltaf á heppilegasta tímanum

Ásta viðurkennir þó að þessi mál séu ekki alltaf einföld og margt spili inn í. „Ef ég á að vera hreinskilin, þá koma tækifærin í lífinu ekkert alltaf á heppilegasta tímanum. Ég geri ekkert lítið úr því að það hefði verið hentugra að þurfa ekki fara frá vegna barneigna, en ég var ráðin á þessum forsendum og það gefur mér aukið sjálfstraust,“ segir hún.

Ásta segir að til þess að þetta gangi upp þurfi fyrirtæki að hafa sterka innviði og það hafi Festi meðal annars með mjög hæfum stjórnendum og starfsfólki og nefnir í því samhengi sérstaklega Magnús Kr. Ingason fjármálastjóra sem mun í fjarveru hennar gegna stöðu forstjóra, en það gerði hann einnig í sumar áður en Ásta var ráðin.

Hægt að ná í varðandi stærri ákvarðanir

Hún segist þó ekki ætla alveg að hverfa á meðan á fæðingarorlofinu stendur. „Án þess að vera að anda ofan í hálsmálið á samstarfsfólkinu, að þá verð ég að sjálfsögðu nálæg og ínáanleg ef upp koma stærri mál eða taka þarf stórar ákvarðanir,“ segir Ásta sem vísar til þess að faraldurinn hafi kennt viðskiptalífinu að mögulegt sé að taka þátt í starfi án þess að vera alltaf á staðnum.

Ekki er þó alltaf sjálfgefið að verðandi mæður geti sinnt krefjandi starfi samhliða meðgöngu og segir Ásta að hún hafi sjálf verið heppin með að vera hraust og þannig getað „fókusað á fleiri bolta en þann sem er hér framan á“ og vísar til kúlunnar sem er komin.

Ekki allar heppnar á meðgöngunni

„Meðganga fer mismunandi í konur. Sumar eru heppnar og hafa fulla orku á meðan aðrar eru ekki jafn heppnar og þá þarf að taka tillit til þess og það er fullkomlega eðlilegt,“ segir Ásta. Segir hún jafnframt að samstarfsfélagar hennar sýni fullan skilning á aðstæðum hennar, enda sé mikið um fjölskyldufólk á vinnustaðnum. Segir hún í gamansömum tón að hún verði líklegast rekin heim á næstunni, en eins og fyrr segir eru aðeins tvær og hálf vika í settan dag.

Ásta segir jafnframt að sú hugmyndafræði að starfsfólk geti gengið í störf annarra og tekið við aukinni ábyrgð þegar þörf er á sé hluti af hennar stjórnunarstefnu. Segir hún að traust í því samhengi sé númer 1,2 og 3 í starfi félagsins. Þegar fólki sé treyst til að taka raunverulega ábyrgð á eigin störfum myndist hvati, metnaður og með réttri markmiðasetningu, stuðningi og eftirfylgni sé það lykillinn til að fólk nái að blómstra í starfi, árangurinn verði betri og fólki líði betur í vinnunni. Í hennar tilfelli eigi það við um æðstu stjórnendur félagsins, en sama gildi um öll önnur störf innan félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK