Musk segir upp helmingi starfsfólks

3.700 manns hefur verið sagt upp.
3.700 manns hefur verið sagt upp. AFP

Tæplega helmingi starfsfólks Twitter hefur verið sagt upp, en auðjöfurinn Elon Musk tók nýverið við stjórnartaumum fyrirtækisins.

Talið er að um 3.700 manns hafi verið sagt upp í hópuppsögnum Musks í dag, en fyrir það störfuðu um 7.500 manns hjá samfélagsmiðlarisanum.

Í gærkvöldi fengu starfsmenn tölvupóst um fyrirhugaða hópuppsögn. Dagblaðið New York Times greinir frá.

Lýsa yfir óánægju á Twitter

Margir fyrrverandi starfsmenn Twitter hafa lýst óánægju sinni á uppsagnarferlinu á Twitter en margir uppgötvuðu síðla nætur að þeim hefði verið sagt upp, þegar vinnuaðgangur þeirra hafði verið gerður óvirkur.

Hópuppsögnin nær til allra deilda, en afar sjaldgæft er að tæknifyrirtæki jafn stórt og Twitter ráðist í álíka stórar hópuppsagnir.

Elon Musk gekk frá kaupum á fyrirtækinu nýlega fyrir 44 milljarða bandaríkjadala, en hann hefur gefið út að fyrirtækið þurfi að leita frekari leiða til að afla tekna.

Elon Musk, eigandi Twitter.
Elon Musk, eigandi Twitter. AFP/Dimitrios Kambouris

Fjárhagsþrýstingur á Musk

Fjárhagsþrýstingur er á Musk eftir að hann tók 13 milljarða dala lán til þess að geta staðið við kaupin á fyrirtækinu. Twitter hefur aðeins tvívegis skilað hagnaði á síðasta áratug.

90% af tekjum Twitter koma frá auglýsendum, en sumir þeirra hafa slitið viðskiptasambandi sínu við Twitter eftir að auðjöfurinn tók við stjórnartaumum fyrirtækisins, þar sem áhyggjur eru uppi að efni miðilsins muni taka breytingum eftir yfirtöku Musks.

Sandra Sucher, prófessor við Harvard, sagði í samtali við New York Times að hún hefði aldrei séð jafn illa framkvæmda hópuppsögn og þessa. „Þetta er skólabókardæmi um hvernig maður gerir þetta ekki,“ sagði Sucher.

Fimm fyrrverandi starfsmenn miðilsins hafa lögsótt fyrirtækið fyrir ólögmætar uppsagnir.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK