Samningur um sölu á Flóka viskí í Kína

Frá undirritun samningsins í Kína.
Frá undirritun samningsins í Kína. Ljósmynd/Aðsend

Eimverk ehf., framleiðandi Flóka viskí, skrifaði um helgina undir stóran samning við China Poly Group Co. Ltd um sölu á drykknum í Kína. Samningurinn var undirritaður á sýningunni CIIE í kínversku borginni Shanghai þar sem Eimverk hefur verið þátttakandi ásamt fjölda íslenskra fyrirtækja undanfarin ár.

Flóki er fyrsta og ennþá eina íslenska viskíið á markaði í dag og hefur verið í stöðugri sókn á erlendum mörkuðum, að því er kemur fram í tilkynningu. Viskíið er nú flutt út til yfir 20 landa.

„Við erum afar ánægð með þennan samning, við höfum unnið að markaðssetningu í Kína frá 2019 og þetta er spennandi þróun. Poly Group fékk fyrstu prufu sendingu frá okkur fyrr á þessu ári og seldist hún hratt upp,“ segir Haraldur Þorkelsson, framkvæmdastjóri Eimverks, í tilkynningunni.

Koma Íslandi á kortið

Samningurinn er í takt við áform félagsins um kraftmikla markaðsókn og stækkun framleiðslugetu allt að hundraðfalt á næstu 10 árum. „Það er okkar markmið að koma Íslandi á kortið í viskí-heiminum, hér eigum við nægt bygg, frábært vatn og græna orku,“ segir Sigrún Barðadóttir, stjórnarformaður Eimverks, í tilkynningunni.

„Eimverk nýtur þess í dag að hafa fengið styrk frá Matvælasjóði til að styrkja markaðsstarf erlendis verulega og hefur að auki fengið afburðar þjónustu og aðstoð frá viðskiptafulltrúum sendiráða Íslands á erlendri grundu,“ kemur einnig fram í tilkynningunni.

Eimverk var stofnað árið 2009 með áherslu á að framleiða Flóka íslenskt viskí úr íslensku byggi.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK