Vilja bjóða út rekstur Leifsstöðvar

Kristinn Magnússon

Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að gera nauðsynlegar ráðstafanir svo að bjóða megi út rekstur, viðhald og uppbyggingu Isavia ohf. á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Undir það fellur rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á flugvallarsvæðinu, starfsemi sem er í beinum tengslum við flugrekstur, rekstur flugvalla og flugstöðvar og aðra starfsemi sem nauðsynlegt er að sé innan haftasvæðis flugverndar.

Friðjón R. Friðjónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins sem situr nú á þingi, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en aðrir þingmenn eru Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Björgvin Jóhannesson og Arnar Þór Jónsson.

Í greinargerð með tillögunni segir að markmið hennar sé að fagaðilum verði falinn rekstur flugstöðvarinnar og mælst sé til þess að fjármála- og efnahagsráðherra nýti heimild laga um opinberan rekstur til að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt.

Friðjón R. Friðjónsson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Friðjón R. Friðjónsson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.

„Verði Keflavíkurflugvöllur rekinn með blönduðu rekstrarfyrirkomulagi væri hægt að auka samkeppnishæfni flugvallarins í þágu neytenda,“ segir í greinargerðinni.

„Keflavíkurflugvöllur gegnir þýðingarmiklu hlutverki hér á landi. Um hann ferðast nær allir þeir erlendu ferðamenn sem heimsækja Ísland. Þrátt fyrir þetta segir í samkeppnismati OECD á íslenskri ferðaþjónustu og byggingariðnaði frá 2020 að Keflavíkurflugvöllur sé einn óhagkvæmasti og dýrasti flugvöllur í Evrópu, jafnvel í samanburði við flugvelli af sömu stærð sem taka á móti svipuðum fjölda farþega og starfræktir eru við sambærilegar veðurfarsaðstæður,“ segir þar jafnframt og bent er á að í samkeppnismatinu komi fram að rekstur opinbera hlutafélagsins Isavia sé sá óhagkvæmasti í samanburði við rekstur allra annarra flugrekstraraðila í Evrópu.

Þá kemur fram að fjárþörf Isavia verði mikil á næstu árum og vafamál sé hvort réttlætanlegt sé að nota almannafé í áhætturekstur líkt og rekstur flugstöðvar. Árið 2021 var nýtt hlutafé upp á fjóra milljarða króna greitt úr ríkissjóði til Isavia. Fram kemur í ársskýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2021 að félagið telji sig þurfa að lágmarki 12–18 milljarða króna í nýju hlutafé á næstu tveimur árum til að standa undir nauðsynlegum fjárfestingum.

Jafnframt er tekið sérstaklega fram að tillagan miði ekki að því að rekstur, viðhald og uppbygging Keflavíkurflugvallar sjálfs sem borgaralegs flugvallar verði boðinn út, né heldur hagnýting flugvallarsvæðisins í þágu öryggis- og varnartengdrar starfsemi og þjóðlegra skuldbindinga ríkisins – heldur einungis sé einungis um að ræða rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK