Aldrei meiri tekjur eða betri afkoma hjá Landsvirkjun

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður Landsvirkjunar á þriðja ársfjórðungi nam 69,1 milljón Bandaríkjadala, eða sem nemur um 10,2 milljörðum íslenskra króna. Samanlagður hagnaður félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nemur 241,4 milljónum dölum, eða 35 milljörðum íslenskra króna.

Forstjóri félagsins segir rekstrarniðurstöðuna þá bestu í sögu félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri félagsins.

Rekstrarhagnaður félagsins á fjórðungnum nam 90,9 milljónum dala, samanborið við 68,3 milljónir dala á sama tíma í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins nemur rekstrarhagnaðurinn 289,9 milljónum dölum, en var 195,4 milljónir á sama tíma í fyrra.

Rekstrartekjur félagsins hafa hækkað mikið á árinu og voru þær 497,8 milljónir dalir, eða um 72,2 milljarðar á fyrstu níu mánuðum ársins. Hækka tekjurnar um 100,9 milljónir dala á tímabilinu frá árinu áður.

Nettó skuldir félagsins hafa þá lækkað um 253,1 milljón dali frá áramótum, en heildarskuldir nema nú 1.247,7 milljónum dala. Handbært fé Landsvirkjunar nemur 351,7 milljónum dala, eða 51 milljarði króna og hefur hækkað um 47,1% frá sama tíma í fyrra.

Meðalverð til stórnotenda án flutnings var á fyrstu níu mánuðum ársins 42,1 Bandaríkjadalur á hverja megavattstund, en það er hæsta verð á því tímabil í sögu félagsins.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, að hærri tekjur megi rekja til endursamninga við stóriðjuna undanfarin ár. „Rekstrarniðurstaða fyrstu níu mánaða ársins var betri en nokkru sinni fyrr í sögu Landsvirkjunar. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði jókst um 57% miðað við sama tímabil í fyrra og nam rúmum 35 milljörðum króna. Þessa aukningu má einkum rekja til skýrra rekstrarmarkmiða og hækkunar á raforkuverði til stórnotenda, en hana má meðal annars rekja til endursamninga undanfarinna ára sem tryggt hafa að flestir viðskiptavinir Landsvirkjunar borga nú verð sem er sambærilegt við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við,“ er haft eftir honum.

Þá segir hann rekstur aflstöðva hafa gengið vel á árinu og að raforkukerfi félagsins hafi verið rekin nálægt hámarksafköstum. Eins og áður hefur verið greint frá sér Landsvirkjun ekki fram á að geta annað mikilli eftirspurn til stórnotenda nema að takmörkuðu leyti og hefur jafnframt útilokað sölu til ákveðinna greina. Ítrekaði Hörður þessa stöðu í tilkynningunni.

„Fjölbreytt ný eftirspurn eftir raforku er bæði frá núverandi viðskiptavinum og áhugaverðum nýjum aðilum. Henni er því miður ekki hægt að mæta nema að takmörkuðu leyti, enda er orkukerfið fulllestað með tilliti til bæði afls og orku. Óhjákvæmilegt er að forgangsraða frekari sölu við  þessar aðstæður. Á sama tíma er unnið hörðum höndum að því að afla tilskilinna leyfa fyrir frekari uppbyggingu orkuvinnslu í vatnsafli, vindorku og jarðvarma, með sérstaka áherslu á Hvammsvirkjun, Búrfellslund  og stækkun Þeistareykja- og Sigöldustöðva.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK