Líður að lokafundi peningastefnunefndar

Hagfræðingar Landsbankans spá í spil peningastefnunefndar.
Hagfræðingar Landsbankans spá í spil peningastefnunefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Peningastefnunefnd kemur saman til síns hinsta fundar á árinu í næstu viku. Í kjölfarið verður stýrivaxtaákvörðun fundarins tilkynnt.

„Nokkuð öruggt er að nefndin muni ræða að halda vöxtum óbreyttum eða hækka um 0,25-0,5 prósentustig. Færa má góð rök fyrir óbreyttu eða hækkun, en við teljum líklegast að nefndin haldi vöxtum óbreyttum,“ segir í Hagsjá, vefriti hagfræðideildar Landsbankans.

Segir þar enn fremur af því er nefndin tók ákvörðun um 0,25 prósentustiga hækkun á fundi sínum í október. Hefði þar mátt rökstyðja hvort tveggja, óbreytta vexti eða hækkun þeirra.

„Úr varð að seðlabankastjóri lagði til að vextir bankans yrðu hækkaðir um 0,25 prósentustig og studdu allir nefndarmenn þá tillögu. Þetta er í fyrsta sinn síðan í maí sem allir nefndarmenn styðja tillögu seðlabankastjóra, en á fundunum í júní og ágúst hefði einn nefndarmaður heldur kosið að hækka vexti meira en raunin varð. 0,25 prósentustig er minnsta hækkun síðan í október í fyrra,“ skrifa hagspekingar Landsbankans.

Mildari tónn hafi verið í yfirlýsingu nefndarinnar í október en fyrri yfirlýsingum hennar. Var þá ekki rætt um hert taumhald peningastefnunnar, segir í Hagsjá, en að framvinda vaxta réðist af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Könnun í síðustu viku

„Eftir ákvörðunina í október eru meginvextir Seðlabanka Íslands, vextir á sjö daga bundnum innlánum, 5,75%, jafn háir og þegar þeir voru hæstir á árunum 2015/2016. Meginvextir Seðlabanka Íslands hafa ekki verið hærri síðan haustið 2010, en þá var skilgreiningin á meginvöxtum aðeins önnur en hún er í dag. Alls hefur nefndin hækkað vexti um 5 prósentustig í núverandi vaxtahækkunarferli, þar af 3,75 prósentustig á þessu ári,“ segir Hagsjá.

Í vikunni birti Seðlabankinn niðurstöður úr könnun á væntingum markaðsaðila sem fór fram 7.-9. nóvember. Verðbólga á þriðja ársfjórðungi var eilítið minni en búist var við í könnuninni sem fór fram í ágúst og horfur fram á við hafa batnað lítillega að mati svarenda. Miðgildi væntinga til næstu 5 ára lækkuðu úr 3,8% í 3,6%.

Miðað við miðgildi svara búist flestir markaðsaðilar við að vaxtahækkunarferlinu sé lokið í bili og að meginvextir verði 5,75% út 2. ársfjórðung á næsta ári. Einungis 18% svarenda telji að taumhald peningastefnu sé of laust eða allt of laust, 67% telji það hæfilegt og 15% telji það of þétt. Til samanburðar hafi hlutfallið sem taldi aðhaldið of laust eða allt of laust 67% fyrir ákvörðunina í ágúst. Þetta hlutfall hafi ekki verið lægra síðan í könnuninni í janúar 2021, segir Hagsjáin frá.

Grein Hagsjár

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK