Disney skiptir út Bob fyrir Bob

Disney rekur meðal annars streymisveituna Disney+.
Disney rekur meðal annars streymisveituna Disney+. AFP

Stjórn afþreyingarrisans Disney leysti forstjórann Bob Chapek frá störfum í gærkvöldi. Um leið tilkynnti stjórnin að hún hefði ráðið Bob Iger til starfa að nýju.

Hann stýrði fyrirtækinu í fimmtán ár, eða þar til nafni hans Chapek tók við fyrir tveimur árum.

Sú tveggja ára valdatíð einkenndist af áhyggjum á Wall Street af auknum útgjöldum fyrirtækisins. Á þessu ári hefur gengi hlutabréfa í Disney fallið um 41%.

Í tilkynningu frá stjórninni segir að fram undan sé sífellt flóknara tímabil umbreytinga í geiranum, sem Bob Iger sé einstaklega vel búinn til að leiða fyrirtækið í gegnum.

Lýsti undrun í tölvupósti til starfsmanna

Iger, sem er 71 árs, valdi Chapek sem sinn eftirmann og gaf honum stöðu forstjóra árið 2020. Síðar kastaðist í kekki þeirra í millum og snemma á þessu ári var svo komið að þeir töluðust sjaldan við.

„Það er með ótrúlegri tilfinningu þakklætis og auðmýktar – og, ég verð að játa, smávegis undrun – sem ég skrifa ykkur í kvöld og færi þær fregnir að ég er að snúa aftur til Walt Disney fyrirtækisins sem forstjóri,“ skrifaði Iger í gærkvöldi í tölvupósti til starfsmanna, sem fréttastofan CNBC hefur undir höndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK