Auka við flug til Raleigh-Durham

Við Duke-háskóla í Norður-Karólínu. Svæðið er þekkt fyrir öfluga háskóla …
Við Duke-háskóla í Norður-Karólínu. Svæðið er þekkt fyrir öfluga háskóla og mikla grósku meðal nýsköpunar- og tæknifyrirtækja. Árni Sæberg

Flug Icelandair til Raleigh-Durham- flugvallar í Norður-Karólínu hefur gengið mun betur en vonir stóðu til. Félagið hóf flug til áfangastaðarins um miðjan maí sl., þá áætlunarflug fjórum sinnum í viku, og til stóð að fljúga út október á þessu ári, taka frí yfir veturinn og hefja flug á ný í maí á næsta ári.

Áfangastaðurinn reyndist þó eftirsóttur og síðla sumars var ákveðið að halda áætlunarfluginu áfram fram yfir áramót. Nú hefur Icelandair ákveðið að hefja flug á ný í byrjun mars í stað maí. Um 10,5 milljónir manna búa á svæðinu og þar er mikil tenging milli viðskipta og menningarlífs.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í samtali við Morgunblaðið að flugið og bókunarstaðan til Raleigh-Durham hafi farið fram úr væntingum félagsins.

„Það liggur mikil greiningarvinna að baki því að velja áfangastaði og við sáum tækifæri í því að hefja flug þangað. Það tekur þó alltaf tíma að byggja upp áfangastaði en þessi hefur gengið betur en við máttum vona,” segir Bogi Nils.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Árni Sæberg

Hann segir að margir kjósi að fljúga með Icelandair til og frá Raleigh-Durham þar sem miklir möguleikar á tengiflugi eru í boði, bæði til áfangastaða í Evrópu auk þess sem Raleigh-Durham flugvöllur býður upp á miklar tengingar til annarra áfangastaða í Bandaríkjunum.

„Tengifarþegarnir eru þó alls ekki þeir einu því við höfum séð töluverðan fjölda ferðamanna koma til Íslands frá svæðinu í sumar og í haust,” segir Bogi Nils.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK