Vilja selja hluta af Heimstaden til lífeyrissjóða

Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi.
Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi. Kristinn Magnússon

Leigufélagið Heimstaden á nú í viðræðum við íslenska lífeyrissjóði um möguleg kaup sjóðanna á hlut í Heimstaden á Íslandi.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er lagt upp með að Heimstaden verði áfram stór eigandi með um 40%-50% hlut og annist áfram rekstur og stýringu eignasafnsins, verði samstarfið að veruleika. Rætt hefur verið við flesta af stóru sjóðunum samkvæmt heimildum blaðsins.

Heildarverðmæti eignasafnsins er rúmir 70 milljarðar króna. Gangi áformin eftir má áætla að fjárfesting lífeyrissjóðanna í félaginu yrði í kringum 30 milljarðar króna, miðað við það sem lagt er upp með.

Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi, staðfestir í samtali við Morgunblaðið að viðræður hafi átt sér stað en segir enga niðurstöðu í höfn enn sem komið er.

Að hans sögn hafa erlendir eigendur félagsins lagt upp með það að Heimstaden á Íslandi verði til lengri tíma að hluta til í eigu stofnanafjárfesta.

„Ég get ekki tjáð mig mikið um þetta á þessu stigi en það er rétt að Heimstaden er sem stendur eini eigandi eignasafnsins hér á landi og er Ísland eina landið í samstæðunni með slíkt fyrirkomulag,“ segir Gauti.

„Það væri í samræmi við rekstur og stefnu Heimstaden í öðrum löndum ef lífeyrissjóðirnir kæmu að félaginu enda er félagið með meðeigendur í öðrum löndum.“

Heimstaden er stærsti leigusali á Norðurlöndunum, en félagið rekur u.þ.b. 155.000 íbúðir í tíu löndum í Evrópu. Alls staðar nema á Íslandi er félagið með stóra meðeigendur úr flokki stofnanafjárfesta og heldur Heimstaden jafnan á 40-50% hluta eignasafnsins.

Stefna á 3.000 íbúðir

Sem kunnugt er hét Heimstaden áður Heimavellir. Norska fasteignafélagið Fredensborg AS keypti félagið í kjölfar yfirtökutilboðs sumarið 2020, afskráði félagið úr Kauphöllinni og breytti nafninu í kjölfarið í Heimstaden Iceland. Félagið hefur síðan starfað undir þeim formerkjum. Heimstaden er stærsti einkaaðilinn í rekstri íbúðarhúsnæðis á Íslandi en 90% af eignum Heimstaden eru á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrenni þess. Frá innkomu félagsins á íslenska markaðinn með kaupunum á Heimavöllum, hefur Heimstaden bætt við sig nýjum húsum í útleigu á höfuðborgarsvæðinu, ásamt nýbyggingum.

Eignasafn Heimstaden samanstendur nú af um 1.700 íbúðum. Áður hefur verið greint frá því að félagið hafi í hyggju að stækka eignasafnið í um 3.000 íbúðir. Aðspurður segir Gauti að það standi enn til.

„Það gerist þó ekki á einni nóttu og það er í raun ekkert sem kallar á það að félagið vaxi hratt. Við sjáum fram á að stækka með sjálfbærum hætti og í réttu hlutfalli við það sem byggt er af nýjum íbúðum,“ segir hann.

Henti vel rekstri sjóðanna

Viðskiptamódel Heimstaden er að eiga og reka leigueignir í félagi við stofnanafjárfesta. Gauti segir að lífeyrissjóðirnir gætu verið góðir langtímafjárfestar í félaginu og að rekstur félagins henti vel fjárfestingarmódeli þeirra, þ.e. þeir myndu tryggja sér verðtryggðar tekjur og ávöxtun.

„Að sama skapi tækju sjóðirnir þátt í því að tryggja gott framboð leiguhúsnæðis hér á landi sem er í samræmi við húsnæðisstefnu stjórnvalda,“ segir Gauti.

„Fram til þess hefur skort langtímaleigusala og margir hafa horft til Norðurlandanna í þeim efnum. Þær þjónustukannanir sem við höfum látið gera bera fyrirtækinu gott vitni. Viðskiptavinir okkar eru almennt ánægðir með íbúðirnar og þjónustuna sem við höfum upp á að bjóða. Það er mikilvægt í uppbyggingu á félagi sem þessu.“

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK