Orkuveitan tapaði 230 milljónum

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, mun láta af störfum í lok …
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, mun láta af störfum í lok árs. Ljósmynd/Atli Már Hafsteinsson

Orkuveita Reykjavíkur tapaði 230 milljónum á þriðja ársfjórðungi ársins, en til samanburðar var hagnaður fyrirtækisins á sama tíma í fyrra 2,1 milljarður. Ástæða þessa eru fyrst og fremst aukin vaxtagjöld sem hækka um tvo milljarða milli ára, en rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta er tæplega 200 milljónum hærri en árið áður. Forstjóri Orkuveitunnar segir stjórnvöld hvetja til fjárfestinga en að Seðlabankinn vinni gegn því markmiði með vaxtahækkunum.

Það sem af er ári er hagnaður fyrirtækisins 4,7 milljarðar, samanborið við 10,9 milljarða á sama tíma í fyrra. Svipaða sögu er að segja þar og af þriðja ársfjórðungi. Rekstrartekjur hafa hækkað á meðan rekstrarkostnaður hefur hækkað hlutfallslega aðeins minna. Það skilar hærri rekstrarhagnaði, en hækkandi vaxtagjöld hafa dregið niður hagnaðinn, auk einskiptiliða.

Hækkandi rekstrartekjur

Rekstrartekjur Orkuveitunnar á þriðja ársfjórðungi námu 12,4 milljörðum samanborið við 11,6 milljarða á sama tíma í fyrra. Þá er rekstrarkostnaður 4,8 milljarðar á móti 4,2 milljörðum á sama tíma í fyrra. Rekstrarhagnaður eftir afskriftir nemur 4 milljörðum samanborið við rúmlega 4,1 milljarð á sama tíma í fyrra. Vaxtagjöld á þriðja ársfjórðungi námu hins vegar 3,9 milljörðum núna, en voru 1,9 milljarðar á þriðja ársfjórðungi í fyrra.

Í tilkynningu vegna uppgjörsins kemur fram að tekjuvöxtur skýrist einkum af háu álverði framan af ári. „Tekjur allra starfsþátta samstæðunnar jukust milli ára um á bilinu 3-16%. Minnstur varð tekjuauki vatnsveitunnar en aðrar tekjur, þar sem Ljósleiðarinn vegur þyngst, jukust hlutfallslega mest.“

Stjórnvöld vilja fjárfestingu en Seðlabankinn slær til baka

Þá segir að þótt Orkuveitan hafi fest vexti á stórum hluta langtímalána sjáist ýmis verðbólguáhrif í uppgjörinu. Er sem dæmi nefnt hækkandi verð á aðföngum, hækkandi tilboð í framkvæmdaverk og hækkandi verðbætur verðtryggðra lána.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar kemur inn á vexti og verðbólgu í tilkynningunni, en þar er m.a. haft eftir honum: „Á sama tíma og stjórnvöld hvetja okkur til fjárfestinga áttfaldar annar armur ríkisvaldsins stýrivexti í landinu á innan við tveimur árum. Háir vextir eiga, að öðru jöfnu, að hvetja okkur til að slá á frest verkum sem ekki eru brýn. Það eru því krefjandi tímar í starfseminni en vonandi að ytri aðstæður muni ekki hefta þau umbótaverkefni sem við tökum þátt í.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK