Verslunarhegðun Íslendinga breytist

Frá jólaösinni í Smáralind. Mynd úr safni.
Frá jólaösinni í Smáralind. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jólaverslun eykst sífellt í nóvembermánuði og er hlutfallslega minni í desember að sögn Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu.

Eflaust hefur farið fram hjá fáum að afslátt hefur verið hægt að fá af öllu mögulegu síðustu daga og vikur. Allt hófst þetta með degi einhleypra 11. nóvember.

Síðasti föstudagur var svo svartur víða og tilboð giltu sums staðar alla síðustu viku. Þessari afsláttarlotu að erlendri fyrirmynd lýkur á netdeginum í dag (e. cyber monday).

„Við vitum ekki nákvæmlega í krónum og aurum hvernig þetta hefur gengið fyrr en tölurnar koma en það er alveg greinilegt að neytendur hafa tekið þessum dögum fagnandi,“ segir Andrés í samtali við mbl.is.

„Bara fyrir örfáum árum var verslun í desember 40% meiri en í nóvember. Núna er munurinn 20%. Desember er enn þá afgerandi stærstur en munurinn hefur minnkað á milli þessara tveggja mánaða síðan svona 2018-2019 sem eru eiginlega einu samanburðarhæfu árin. Það er eiginlega útilokað að taka árin 2020 og 2021 til samanburðar.“

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.
Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. mbl.is

Fólk eyðir ekki sömu peningum tvisvar

Andrés segir Covid-árin ekki vera samanburðarhæf því þá ferðuðust Íslendingar lítið til útlanda. Viðskipti hafi gengið vel fyrir sig hér á landi af þeirri ástæðu.

„Nú er miklu stærri hluti viðskipta sem fer fram erlendis. Íslendingar ferðast eins og ég veit ekki hvað,“ segir Andrés.

Hann segir utanlandsferðir Íslendinga eitthvað spila inn í sölu hér á landi en minna sé um að flugfélögin auglýsi beinlínis verslunarferðir til útlanda eins og áður var gert.

„Engu að síður, fólk ferðast og það eyðir ekki sömu peningunum tvisvar, svo mikið er víst.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK