Nýtt skipurit og sjö sviðsstjórar

Huld Magnúsdóttir er forstjóri Tryggingastofnunar.
Huld Magnúsdóttir er forstjóri Tryggingastofnunar. Ljósmynd/Silla Páls

Nýtt skipurit tók gildi hjá Tryggingastofnun í nóvember sem byggir m.a. á stefnumótunarvinnu sem hefur verið í gangi að undanförnu hjá stofnuninni. Með breytingunni verða nú sjö svið hjá TR og er hvert þeirra leitt af sviðsstjóra.

Huld Magnúsdóttir, forstjóri TR, segir í tilkynningu að sviðsstjórarnir verði faglegir leiðtogar hver á sínu sviði.

„Með nýju skipulagi viljum við einfalda ferla og ákvörðunartöku með það að markmiði að ná fram bættri þjónustu. Við leggjum mikla áherslu á vönduð vinnubrögð og gott aðgengi að stofnuninni. Við erum í mikilli þróunarvinnu í stafrænni þjónustu og munum til dæmis flytja vefinn okkar á island.is á næsta ári. Framundan eru spennandi tímar hjá okkur þar sem við munum meðal annars leggja aukna áherslu á fræðslu- og kynningarmál,“ er haft eftir Huld. 

Huld Magnúsdóttir hóf störf sem forstjóri Tryggingastofnunar 1. júní 2022 en hún var settur forstjóri Tryggingastofnunar 2015-2016. Huld starfaði sem framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins síðastliðin fimm ár, áður var hún forstjóri Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda og sjónskerta. Hún starfaði hjá Össuri hf. og Ossur Americas 1993-2008 meðal annars sem framkvæmdastjóri framleiðslu og dreifingu í Norður Ameríku, gæðastjóri, kynningarstjóri  og framkvæmdastjóri Generation II, dótturfélags Ossur Americas. Hún hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og félagasamtaka og var formaður íslandsdeildar Amnesty International 2000-2004. Auk starfa hjá Össuri hf. var Huld verkefnastjóri í samstarfsverkefni Össurar hf. og utanríkisráðuneytisins í Bosníu Herzegóvínu í fjölmörg ár vegna aðstoðar Íslands eftir stríðið í fyrrum Júgóslavíu.

Huld hefur meistaragráðu í International Business frá Háskólanum á Bifröst, BA gráðu í Alþjóðafræði frá University of Sussex í Bretlandi, lærði ensku við Háskóla Íslands og hefur einnig Diplóma á meistarastigi í Opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Þá er  Huld viðurkenndur stjórnarmaður og hefur lokið námi hjá Academy for Women Entrepreneurs.

Anna Elísabet Sæmundsdóttir.
Anna Elísabet Sæmundsdóttir. Ljósmynd/Silla Páls

Anna Elísabet Sæmundsdóttir er sviðsstjóri þjónustu, en áður gegndi hún stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra á réttindasviði.  Anna Elísabet mun leiða þjónustu við viðskiptavini og vinnslu umsókna. Undir þjónustusvið heyrir m.a. þjónustumiðstöð, símaver, og upplýsingagjöf til viðskiptavina. Anna Elísabet hefur starfað hjá Tryggingastofnun síðan 2007,  hefur því víðtæka reynslu af störfum innan stofnunarinnar og þekkir mjög vel til málaflokksins í heild. Hún starfaði áður sem umboðsmaður TR hjá sýslumanninum í Vestmannaeyjum á árunum 2001- 2008.

Anna Elísabet er með BA próf í félagsfræði frá Háskóla Íslands og meistarapróf í stjórnun með áherslu á verkefnastjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2022.

Guðmar Guðmundsson.
Guðmar Guðmundsson. Ljósmynd/Silla Páls

Guðmar Guðmundsson er sviðsstjóri fjármála- og reksturs en hann kom til starfa hjá TR nú í byrjun nóvember. Guðmar hefur verið fjármálastjóri Veðurstofu Íslands undanfarin ár en hann hefur viðamikla reynslu af fjármála- og rekstrarstjórnun á sviði upplýsingatækni, m.a. á alþjóðlegum vettvangi hjá TM Software og Nýherja (Origo) á árunum 1999 til 2010.  Hann starfaði hjá VÍS sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs á árunum 2010 til 2017.

Guðmar er með cand.oecon. og meistarapróf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur setið í stjórnum fyrirtækja bæði hér heima og erlendis og gegnt trúnaðarstörfum fyrir Samtök Iðnaðarins.

Hermann Ólason.
Hermann Ólason. Ljósmynd/Silla Páls

Hermann Ólason er sviðsstjóri upplýsingatækni og leiðir hann upplýsingatæknimál og stafræna þróun innan TR. Upplýsingatæknisvið hefur jafnframt yfirumsjón með tölfræðiúrvinnslum og gagnagreiningu. Hermann hefur víðtæka reynslu af upplýsingatæknimálum og stjórnun og hefur starfað hjá TR frá árinu 1998. Hann hefur tekið virkan þátt í stefnumótun í upplýsingatækni fyrir stofnanir ríkisins um árabil. Hermann var stundakennari í Tölvuháskóla Verslunarskóla Íslands (TVÍ) á árunum 1998 – 2005.

Hermann er með próf í rafmagnsverkfræði og tölvunarfræði frá Háskóla Íslands sem og meistarapróf í rafmagnsverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet (DTU) í Kaupmannahöfn.

Hólmfríður Erla Finnsdóttir.
Hólmfríður Erla Finnsdóttir. Ljósmynd/Silla Páls

Hólmfríður E. Finnsdóttir er sviðsstjóri mannauðsmála en hún hefur gengt stöðu mannauðsstjóra hjá TR í um áratug og hafði áður starfað við mannauðsmál hjá ríkinu frá árinu 2000. Hún hefur einnig reynslu af markaðs- og kynningarmálum.

Hólmfríður hefur mikla þekkingu og reynslu af mannauðsmálum hjá hinu opinbera og er oft til hennar leitað með úrvinnslu ýmissa mannauðstengdra verkefna. Hún hefur setið í ýmsum faghópum um mannauðsmál og sat á tímabili í stjórn mannauðsstjóra hjá ríkinu.

Hólmfríður er með meistarapróf í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands sem og BS í viðskiptafræði og BA prófi í hagsögu frá sama skóla. Hólmfríður hefur jafnframt lokið prófi í sáttamiðlun.

Sigrún Jónsdóttir.
Sigrún Jónsdóttir. Ljósmynd/Silla Páls

Sigrún Jónsdóttir er sviðsstjóri samskipta en hún gegndi áður stöðu framkvæmdastýru á skrifstofu forstjóra. Helstu verkefni sviðsins snúa að samskiptum TR gagnvart viðskiptavinum stofnunarinnar, miðlun upplýsinga varðandi starfsemina og samskipti við hagsmunaaðila, fjölmiðla og Alþingi.

Sigrún hefur víðtæka reynslu og þekkingu af velferðar- og fræðslumálum m.a. sem kennslustjóri í Háskólanum á Bifröst 2014- 2019 auk þess að hafa tekið virkan þátt í stjórnmálum um árabil og var bæjarfulltrúi í Kópavogi 1998-2006. Hún er með meistarapróf í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands, og með kennsluréttindi og BA próf í stjórnmálafræði frá sama skóla. Sigrún var ein af stofnendum Kvennalistans árið 1983.

Þórir Hrafn Gunnarsson.
Þórir Hrafn Gunnarsson. Ljósmynd/Silla Páls

Þórir Hrafn Gunnarsson er sviðsstjóri færnisviðs en hann hefur starfað hjá Tryggingastofnun frá árinu 2007, fyrst sem sérfræðingur en frá árinu 2009 sem lögfræðingur. Undanfarið ár hefur hann verið aðstoðarframkvæmdastjóri réttindasviðs. Þórir mun leiða starf færnisviðs TR sem sér m.a. um matsteymi stofnunarinnar varðandi örorku og endurhæfingu.

Þórir hefur mikla þekkingu og reynslu á sviði velferðar- og félagsmála. Fyrir utan störf hans hjá Tryggingastofnun, þar sem hann hefur komið að flestum þeim málaflokkum sem stofnunin sinnir, þá var hann m.a. formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur og hefur hann einnig sinnt stundakennslu í Háskóla Íslands.

Þórir Hrafn er með Mag. juris próf frá Háskóla Íslands, með áherslu á stjórnsýslurétt.

Þórir Ólason.
Þórir Ólason. Ljósmynd/Silla Páls

Þórir Ólason er yfirlögfræðingur og sviðsstjóri stjórnhátta. Svið stjórnhátta hefur það meginhlutverk að þjónusta viðskiptavini, einkum með því að gæta að reglufylgni í starfsemi stofnunarinnar, veita lögfræðilega ráðgjöf ásamt því að sinna margvíslegum stjórnsýslulegum úrlausnarefnum.

Þórir hefur mikla reynslu af starfsemi Tryggingastofnunar og hefur öðlast yfirgripsmikla þekkingu á sviði almannatrygginga í störfum sínum. Þórir hóf störf hjá Tryggingastofnun samhliða námi árið 2008, fyrst sem sérfræðingur á fjármálasviði og síðar sem lögfræðingur. Þar starfaði hann til ársins 2010 þegar hann tók einnig við starfi verkefnastjóra innheimtumála. Árið 2014 varð hann jafnframt verkefnastjóri uppgjörsmála til ársins 2017 er hann tók við stöðu deildarstjóra. Árið 2019 varð hann aðstoðarframkvæmdastjóri lífeyrissviðs og síðar réttindasviðs tveimur árum síðar. Snemma árs 2022 tók hann við stöðu yfirlögfræðings þar sem hann hefur m.a. haft það hlutverk að halda utan um persónuverndarmál hjá stofnuninni. Þórir hefur til viðbótar við dagleg störf sín komið að mörgum stefnumótunar og þróunarverkefnum á sviði almannatrygginga.

Þórir lauk Mag. juris prófi  frá Háskóla Íslands árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK