Bandarískur sjóður kaupir stóran hlut í Nox

Nox þróar meðal annars tækni og tæki til að greina …
Nox þróar meðal annars tækni og tæki til að greina svefnraskanir. mbl.is/Hari

Bandarískur fjárfestingarsjóður hefur keypt stóran hlut í svefnrannsóknafyrirtækinu Nox Health af Alfa Framtaki. Nox Health er móðurfélag Nox Medical ehf. Fjárfesting sjóðsins, Vestar Capital Partners, er gerð annars vegar með hlutafjáraukningu og hins vegar með kaupum á eignarhlut af Alfa.

Í tilkynningu vegna viðskiptanna kemur fram að hlutafjáraukningunni sé ætlað að styðja við vöxt Nox Health.

Félagið Nox Holding ehf. fer eftir sem áður með stærstan eignarhlut í Nox Health, en félagið er að langstærstum hluta í eigu stjórnenda og stofnenda.  

„Vestar Capital Partners er traustur fagfjárfestir sem leggur Nox til mikla sérþekkingu og reynslu úr heilbrigðisgeiranum og gefur okkur tækifæri til að sækja enn hraðar fram, meðal annars á sviði þróunar, framleiðslu og dreifingu lækningavara,“ er haft eftir Sigurjóni Kristjánssyni, forstjóra Nox Health. Segir hann Vestar vera frábæra félaga til að taka við sem kjölfestufjárfesta.

Alfa Framtak kom að Nox Health árið 2019 en í kjölfarið voru fyrirtækin Nox Medical og Fusion Health sameinuð undir merkjum Nox Health. „Með sameiningunni var stefnt að því að auka sókn á erlendum mörkuðum og hraða vexti. Samstarf okkar og félagsins hefur verið farsælt, settum markmiðum var náð og ávöxtun hluthafa góð,“ er haft eftir Gunnari Páli Tryggvasyni, framkvæmdastjóra Alfa Framtaks.

Gunnar Páll Tryggvason er framkvæmdastjóri Alfa Framtaks, en sjóður á …
Gunnar Páll Tryggvason er framkvæmdastjóri Alfa Framtaks, en sjóður á vegum félagsins hefur selt stóran hluta í Nox Health til bandarísks sjóðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alfa Framtak var með tæplega fjórðung í Nox Health

Samkvæmt ársreikningi sjóðsins Umbreytingar slf., sem Alfa Framtak stýrir, var eignarhlutur sjóðsins í Nox Holding í lok síðasta árs 31,33%. Nox Holding á svo 76% hlut í Nox Health og því er hlutur Umbreytingar í Nox Health samkvæmt því um 23,8%.

Samkvæmt ársreikningnum er stærsti hluthafi Umbreytingar Lífeyrissjóður verslunarmanna með 15% hlut. Þar á eftir er LSR með 14,29% og Snæból ehf., félag í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reyrs Stefánssonar, með 11,10% hlut. 

Nox Health skiptist í þrjár rekstrareiningar; Nox Medical, Nox Enterprise og FusionSleep og eru höfuðstöðvar þess í Atlanta í Bandaríkjunum og Reykjavík. Fyrirtækið kemur að greiningu, meðhöndlun og eftirfylgni á svefnvanda og framleiðir tækni og tækjabúnað sem er notaður til greiningar á svefnröskunum.

Hjá Nox starfa um þrjú hundruð starfsmenn og þar af tæplega 100 á Íslandi við þróun, framleiðslu og markaðssetningu lækningavara undir merkjum Nox Medical.

Vestar Capital Partners er fjárfestingarsjóður sem sérhæfir sig í langtímavaxtarfjárfestingum. Sjóðurinn fjárfestir í fyrirtækjum sem starfa í tækni- og heilbrigðisgeiranum. Frá stofnun árið 1988 hefur Vestar fjárfest fyrir um 11 milljarða dollara, jafnvirði um 1.586 milljarða króna, í 90 fyrirtækjum. Í framhaldinu hefur verið ráðist í fleiri en 200 viðbótarfjárfestingar fyrir samtals um 52 milljarða dollara.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK