Óheppilegt að náinn ættingi var í kaupendahópnum

Katrín Jakobsdóttir á fundinum í morgun.
Katrín Jakobsdóttir á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, spurð á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um hvort eðlilegt hafi verið að fjármála- og efnahagsráðherra gat tekið ákvörðun um heildarsöluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Katrín sagði aðkomu náins ættingja vekja upp spurningar í litlu samfélagi eins og Íslandi og bætti við að ríkisstjórnin hafi ekki endilega séð fyrir að slík náin tengsl yrðu uppi á borði í kaupendalistanum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir á fundinum í morgun.
Þórunn Sveinbjarnardóttir á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, spurði frekar út í traust og ásýnd gagnvart almenningi í tengslum við söluna og hvort Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefði ekki átt að skoða þessa hluti betur.

Katrín sagði ráðherrann bera ábyrgð gagnvart ferlinu og að það sé málefnalegt. Hann hafi haft almenna rannsóknarskyldu en ekki skyldu til að fara yfir þá 150 til 200 fjárfesta, nöfn og kennitölur þeirra, til að athuga með tengslin. Kaupendalistinn hafi ekki verið lagður fram fyrir hann og að honum hafi ekki verið kunnugt um hverjir voru á honum. Hún sagði ráðherra hafa haft þá valkosti að taka afstöðu til þess sem Bankasýslan lagði fram í sínu mati með því að samþykkja það eða hafna. Lög hafi verið sett til að tryggja sjálfstæði Bankasýslunnar gagnvart stjórnmálamönnum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurði hún á móti hvort það hefði skapað traust ef Bjarni hefði sagt að hann ætlaði að fara yfir kaupendalistann.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Katrínu um hvort lögin séu ekki skýr um að fjármála- og efnahagsráðherra beri ábyrgð á sölunni.

Katrín sagði það hafa valdið sér verulegum vonbrigðum að skynja afstöðu Bankasýslunnar gagnvart sölu á almannaeign að ekki væri vilji til þess að upplýsa um kaupendalistann. Hún sagði að skýra þurfi betur aðkomu Alþingis að slíkri sölu í framtíðinni og tryggja betur gagnsæi. „Ég fæ ekki séð að ráðherra hafi gerst sekur um brot á lögum,“ sagði Katrín og bætti við að ákveðin ábyrgð fylgi því að taka ákvörðun um um að birta kaupendalistann eins og hann gerði. Einnig hafi ábyrgð verið sýnd með því að óska eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jafnframt kvaðst Katrín ekki geta séð að lög hafi verið brotin um söluna á hlutnum. „Ekki þegar maður les í gegnum ferlið,“ sagði hún en minnti á að beðið sé eftir niðurstöðu skoðunar fjármálaeftirlits Seðlabankans. „Ég tel að þessi sala hafi ekki verið nægilega gagnsæ og umræða um lykilhugtök í kynningu voru ekki fullnægjandi.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði hvort ráðherra hefði átt að gæta að hæfi sínu áður en hann tók lokaákvörðun um söluna. Katrín benti á að Bankasýslan sé skilgreind í lögum sem sjálfstæð stofnun. Það hafi löggjafinn ákveðið til að tryggja að stjórnmálamenn væru ekki með beina aðkomu að því hver keypti í bönkum.

„Ég myndi hafa talið það mjög óeðlilegt að fjármálaráðherra hafi farið yfir þennan kaupendalista sérstaklega og valið þar úr einstaka kaupendur,“ sagði Katrín.

Hún sagði jafnframt að helstu markmiðin hafi náðst með sölunni á hlutnum í Íslandsbanka en að hægt sé að draga lærdóm af skýrslu Ríkisendurskoðunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK