Stefnir enn í stærsta gistináttaár frá upphafi

Fjöldi ferðamanna hefur enn ekki náð þeim hæðum sem voru …
Fjöldi ferðamanna hefur enn ekki náð þeim hæðum sem voru fyrir faraldurinn, en hver og einn ferðamaður ver lengri tíma hér á landi og því stefnir í að árið verði metár þegar kemur að fjölda gistinátta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gistinætur á skráðum gististöðum í október voru samtals 715.500, en það er aukning um 33% frá fyrra ári. Gistinætur erlendra ferðamanna voru 80% þessa fjölda, en þeim hefur fjölgað um 55% milli ára.

Fjölgunin er svipuð víðast hvar um landið, eða 31-41% nema á Suðurnesjum, þar sem fjölgaði um 16% og á Norðurlandi þar sem fjölgaði um 4% milli ára. Þetta er meðal þess sem lesa má úr tölum Hagstofunnar.

Það sem af er ári eru gistinætur 7.860.000, en það er aukning um 70% frá því í fyrra og 3% meira en frá metárinu 2018 þegar þær voru 7.635.000 á sama tíma. Árið 2017 og 2019 voru gistinæturnar eftir 10 mánuði í kringum 7,5 milljónir. Faraldursárin 2020 og 2021 voru gistinæturnar á þessum tímapunkti annars vegar 3,2 milljónir og hins vegar 4,4 milljónir.

Fyrstu sex mánuði ársins var fjöldi gistinátta aðeins á eftir því sem var árin 2017 til 2019, en í júlí var fjöldinn orðinn svo gott sem sá sami og þessi fyrri ár. Ágúst var svo mjög stór í gistiþjónustunni og tók fram úr fyrri árunum og hefur fjöldinn síðan þá haldist yfir fyrri metárum. Haldi því fram sem horfir verður árið í ár metár þegar kemur að fjölda gistinátta.

Metár í gistinóttum en ekki í fjölda ferðamanna

Þrátt fyrir þennan fjölda gistinátta er fjöldi ferðamanna enn nokkuð undir þeim tölum sem sáust á árunum fyrir faraldurinn. Það þýðir að hver og einn ferðamaður ver lengri tíma hér á landi en áður. Fyrstu 10 mánuði þessa árs hafa brottfarir erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll verið 1,45 milljónir samkvæmt tölum Ferðamálastofu. Til samanburðar voru brottfarir erlendra gesta um Keflavíkurflugvöll á fyrstu 10 mánuðum ársins 2019 samtals 1,73 milljónir. Árið áður var fjöldinn 2,03 milljónir og árið 2017 var fjöldinn 1,92 milljónir.

Reyndar þarf að fara aftur til áranna 2015-2016 til að finna svipaðan fjölda ferðamanna og í ár. Þannig fór 1,1 milljón ferðamanna af landi fyrstu 10 mánuði ársins 2015, en talsverð fjölgun varð árið eftir og fóru þá 1,5 milljónir frá Keflavíkurflugvelli á fyrstu 10 mánuðum ársins.

Framboð hótelherbergja í október jókst um 5% frá október 2021. Herbergjanýting á hótelum var 73,1% og jókst um 11,3 prósentustig frá fyrra ári.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK