Forstjóri Sýnar bjartsýnn

Yngvi Halldórsson kveðst bjartsýnn á framtíðina eftir skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu.
Yngvi Halldórsson kveðst bjartsýnn á framtíðina eftir skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Uppsagnir voru vel undir viðmiðum Vinnumálastofnunar sem eru 30 manns. Samhliða fækkum við stöðugildum sem kemur til vegna uppsagna starfsfólks og stjórnenda á síðustu vikum,“ segir Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, í samtali við mbl.is um skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu sem tilkynnt var um í vikunni. Hann segir fækkun starfsfólks vera þvert á öll svið fyrirtækisins.

Yngvi segir breytingarnar til þess fallnar að einfalda skipulag og auka skilvirkni með það að markmiði að sækja fram á næsta ári með sterkari rekstrargrundvöll. „Síðan er óhjákvæmilegt að horfa til ytri aðstæðna, verðbólgu, veikingar krónunnar og óvissu með niðurstöður kjarasamninga,“ segir Yngvi enn fremur.

Hann kveður breytingarnar mjög takmörkuð áhrif hafa á störf fréttastofunnar sem starfrækir Vísi, Stöð 2 og Bylgjuna og bætir því við að þar séu engar breytingar á döfinni.

Engin áform um sölu fjölmiðla

Spurður hvort til greina kæmi að selja fjölmiðlahluta Sýnar segir Yngvi engin áform um slíka sölu og segir frekari aðgerðir ekki fyrirhugaðar innan fyrirtækisins á næstunni.

Forstjórinn fundaði með starfsfólki sínu í gær, fór þar yfir breytingarnar og svaraði spurningum starfsfólks. Spurður út í stöðuna fram undan kveður hann bjartsýni ríkja þar.

„Við erum bjartsýn á framtíðina og ætlum okkur að ná góðum árangri á okkar mörkuðum,“ segir Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, að lokum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK