Íslenskar bækur og spil jólagjöf ársins

Reikna má með íslenskum bókum og spilum í fjölda jólapakka …
Reikna má með íslenskum bókum og spilum í fjölda jólapakka árið 2022. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslenskar bækur og spil er að mati Rannsóknaseturs verslunarinnar jólagjöf ársins 2022 eftir því sem setrið greinir frá á heimasíðu sinni.

Segja má að í ár hafi landsmenn komið til baka með nokkrum hvelli eftir takmörkuð mannamót og hátíðahöld undanfarinna tveggja faraldursára. Mikið hefur verið um ferðalög og skemmtanir á árinu ef marka má greiðslukortanotkun landans,“ segir þar, en auk þess bent á að ýmislegt annað hafi gengið á í veröldinni, svo sem stríðshörmungar, náttúruhamfarir og verri efnahagshorfur.

Rannsóknasetur verslunarinnar velur jólagjöf ársins með upplýsingaöflun frá neytendum og verslunum um vinsælar sérvörur er líða tekur að jólum. Rýnihópur setursins kom svo saman nú fyrir mánaðamótin og kvað upp úrskurð sinn.

Hlúð að tungumálinu

Spáir setrið uppsafnaðri þörf fyrir jólasamveru og mannamót í ár eftir samkomutakmarkanir kórónuáranna. „Og hvað er skemmtilegra en að koma saman um jól, spila og ræða jólabækurnar? Nú klæðir landinn sig úr jogging gallanum, jólagjöf ársins í fyrra, fer í glamúr gallann, spilar saman, spjallar saman og skemmtir sér saman,“ segir í hugleiðingum ritara Rannsóknasetursins.

Flestir neytendur völdu bækur og spil á óskalistann sinn fyrir þessi jól, 55 prósent þeirra sem spurðir voru, auk þess sem vísitala Rannsóknasetursins um smásöluveltu sýnir að vinsældir bókarinnar hafa aukist frá árinu 2018.

„Jólagjöf ársins í ár fær okkur til að tala saman, spila saman og lesa saman sem hjálpar okkur að hlúa betur að hvort öðru og tungumálinu okkar,“ segir að lokum í pistli setursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK